Krafa um þróun

Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps.

Í júní 2017 skilaði starfshópur um endurskoðun á framtíðarskipan byggðakvóta skýrslu og ýtarlegum tillögum um breytingar í meðferð byggðakvóta, hópnum var ætlað að endurskoða löggjöf og framkvæmd almenns  og sértæks byggðakvóta með tilliti til byggðafestuáhrifa og með það að markmiði að hámarka nýtingu þess hluta sem dregið er frá heildarafla og ráðstafað er til þessa tveggja þátta. Hópurinn var sammála um t.d. eftirfarandi forsendur:

  • Tryggja þarf sveigjanleika í ráðstöfun byggðakvóta til að mæta aðstæðum á hverjum stað og stuðla að fjölbreyttum lausnum á vanda minni sjávarbyggða, þ.m.t. uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi ef ekki eru lengur taldar forsendur fyrir sjávarútvegi.
  • Byggðakvóta er ætlað að efla atvinnulíf í sjávarbyggðum en ekki einungis rekstur tiltekinna fyrirtækja innan þeirra. Gæta þarf jafnræðis milli einstaklinga og fyrirtækja og tryggja að þau verðmæti sem felast í byggðakvóta skili sér til samfélagsins í heild.

Starfshópurinn setti fram sex tillögur um hvernig byggðkvóta skyldi ráðstafað, til dæmis að bjóða megi öðrum aðilum aðild að slíkum samningum, svo sem íbúasamtökum eða hverfisráðum, atvinnuþróunarfélögum, landshlutasamtökum, frjálsum félagasamtökum, fyrirtækjum eða samtökum þeirra.

Nú háttar svo til að ekki er lengur rekin fiskvinnsla á Tálknafirði og því liggur ekki beint við að tengja vinnsluskyldu við úthlutaðan byggðakvóta. Það er hins vegar aðeins stutt í næstu vinnslu og þangað sækja nokkrir íbúar sveitarfélagsins vinnu, taka þarf tillit til þeirra starfsöryggi.

Sveitarstjórn Tálknafjarðar er því talsverður vandi á höndum að útdeila þeim gæðum sem byggðkvóti óumdeilt er. Sveitarstjórnin hefur nú samþykkt að óska eftir að ríkisvaldið standi við þær tillögur sem starfshópurinn lagði til og leyfa byggðakvótanum að nýtast öðrum atvinnugreinum enda þykir ljóst að uppbygging á fiskvinnslu í sveitarfélaginu ekki fyrirhuguð.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps er umhugað um bæði yngri og eldri borgara sveitarfélagsins og sýnir það með lækkun leikskólagjalda frá síðustu áramótum og að gera nú kröfu um að þeir sem fá úthlutaðan byggðakvóta greiði 20 kr. af hverju kílói af úthlutuðum byggðakvóta í sjóð til undirbúnings á  byggingu dvalarheimilis á Tálknafirði.

Að öðru leyti eru óbreyttar óskir um breytingar á reglum um byggðakvóta, 30% verði skipt jafnt milli umsækjenda og 70% hlutfallslega. Löndunarskylda verður í Tálknafjarðarhöfn og vinnsluskylda ef ekki fæst samþykki fyrir framlagi til byggingar dvalarheimilis.

Bryndís Sigurðardóttir

sveitarstjóri

DEILA