Framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvör hf í Hnífsdal vakti athygli á því í áramótakveðju sinni, sem birtist á heimasíðu fyrirtækisins, að Hafrannsóknarstofnun hefði ekki staðið við eldurskoðun áhættumats fyrir sjókvíaeldi, sem boðað hafði verið þegar sól væri hæst á lofti síðastliðið sumar. Ekkert hefur orðið af endurskoðuninni en þess í stað boðað að óskað verði eftir samstarfsaðilum um eldi á 3.000 tonnum af laxi í Djúpinu. Átti auglýsing í þá veru að birtast í lok ágúst, síðar í október, en hvorugt stóðst. „Síðan þá hefur forstjóri Hafró ekki séð ástæðu til þess að svara fyrirspurnum Háafells um málið þrátt fyrir ítrekaðar óskir“ skrifar Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri HG þann 27. desember 2018.
Af þessu tilefni voru Sigurði Guðjónssyni forstjóra Hafrannsóknarstofnunar sendar fyrirspurnir um þetta mál.
Spurt var :
- Hvenær verður leitða eftir samstarfsaðilum um eldi á 3.000 tonnum af laxi í Ísafjarðardjúpi ?
- Hvers vegna hefur framkvæmdastjóri HG í Hnífsdal ekki fengið nein svör frá stofnuninni við fyrirspurnum sínum sbr. skrif hans á heimasíðu fyrirtækisins, http://www.frosti.is/ ?
Svör forstjóra Hafrannsóknarstofnunar hafa borist og eru þessi:
- Búið er að gera auglýsingu um verkefnið „ Auglýst ferli um val á aðila um rekstur á 3000 tonna tilraunaeldi í Ísafjarðadjúpi.“ í samvinnu við Ríkiskaup. Samhliða því er verið að leggja lokahönd á rannsóknáætlun fyrir verkefnið. Vinna þurfti forþætti verkefnis samhliða sem tafði þá vinnu nokkuð en þeirri vinnu er lokið og gerum við ráð fyrir að auglýsa ferlið í þessum mánuði.
2. Ástæðan er sú að undirbúningur hefur tekið mun lengri tíma en við áætluðum í upphafi enda þarf að vanda til verksins.