Pétur Bjarnason íþróttamaður Bolungarvíkur 2018

Guðný Bjarnadóttir fyrir Pétur Bjarnason, Helgi Pálsson, Hreinn Róbert Jónsson og Mateusz Lukasz Klóska. Mynd: Bolungarvik.is

Pétur Bjarnason, knattspyrnumaður, var útnefndur íþróttamaður Bolungarvíkur 2018 í hófi fræðslumála- og æskulýðsráðs sem fram fór í síðustu viku í Félagsheimili Bolungarvíkur.

Útnefningunni var fylgt úr hlaði með þessum orðum:

Pétur Bjarnason var lykilleikmaður í meistaraflokki Vestra á liðnu ári. Hann lék 22 leiki af 22 leikjum Vestra í 2. deild og skoraði 14 mörk. Pétur var markahæsti leikmaður Vestra á tímabilinu. Hann hefur tekið miklum framförum sem leikmaður undanfarin ár og hann er í dag lykilleikmaður í meistaraflokki. Pétur stundar knattspyrnu af krafti og mætir á allar æfingar og æfir einnig aukalega. Hann hefur mikinn metnað og setur markið hátt. Það er engin spurning að við eigum eftir að heyra mikið af Pétri í framtíðinni þar sem hæfileikar, dugnaður og metnaður eru miklir hjá honum. Framkoma Péturs er til fyrirmyndar hvort sem er gagnvart stjórn, starfsmönnum eða öðrum hjá félaginu. Hann er góður félagi og mikill liðsmaður. Pétur hefur einnig þjálfað unga iðkendur undanfarin ár og sinnt því af mikill fagmennsku. Pétur er frábær fyrirmynd yngri iðkenda. Pétur var útnefndur íþróttamaður Bolungarvíkur árið 2015.

Auk Péturs voru nefndir til íþróttamanns ársins Helgi Pálsson, kraftlyftingadeild UMFB, Hreinn Róbert Jónsson, Knattspyrnufélagið Hörður fyrir handknattleik og Mateusz Lukasz Klóska, Blakdeild Vestra.

Þá voru veittar fjölmargar viðurkenningar bæði til iðkenda og þjálfara.

DEILA