Oddviti Reykhólahrepps Ingimar Ingimarsson og formaður skipulags, – hafnar- og húsnæðisnefndar Karl Kristjánsson mynduðu meirihluta í nefndinni og samþykkti tillögu til sveitarstjórnar um að R leiðin verði sett inn sem aðalskipulagstillaga. Áður felldu þeir tillögu Eiríks Kristjánssonar um að Reykhólahreppur auglýsi áður framkomna aðalskipulagsbreytingu (1708019) í B-deild stjórnartíðinda, það er Þ-H leiðina.
Þetta kemur fram í grein Eiríks Kristjánssonar sem birt er á bb.is.
Það er ljóst að tveir af fimm hreppsnefndarmönnum ætla að keyra áfram af fullri hörku R leiðina. Þeir þrír hreppsnefndarmenn sem einnig að málinu mun koma á næsta hreppsnefndarfundi hafa ekki, svo vitað er, lýst afstöðu sinni til málsins.
Gert er ráð fyrir að málið verði afgreitt í næstu viku á fundi hreppsnefndar. Það vekur athygli að engar hugmyndir virðast vera um að leggja leiðavalið fyrir íbúana með íbúakosningu.
Enginn stuðningur
En það verður að teljast líklegt að oddvitinn hafi tryggt sér stuðning við R leiðina fyrst hann fer af stað með málið í gegnum skipulagsnefndina.
Það liggur hins vegar ekki fyrir hvernig á að hrinda R leiðinni í framkvæmd í ljósi þess að hún kolféll á öryggismati og því með öllu óheimilt að hrinda henni í framkvæmd. Eiríkur Kristjánsson vildi ekki svara því og sagði að þeir yrðu að svara þessu sem að þessari tillögu standa.
Reykhólahreppur hefur ekki fengið neinn stuðning frá Vestfirðingum við R leiðina og önnur sveitarfélög hafa hvatt hreppsnefndina til þess að samþykkja Þ-H leiðina. Vegagerðin telur R leiðina óráð, því auk þess að vera a.m.k. 4 milljörðum króna dýrari, meiri umhverfisáhrif og lakara öryggi þá mun það þýða a.m.k. tveggja ára seinkun.