Orkubúið vill stöðvun framkvæmda í Reykjanesi

Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar voru lögð fram til kynningar gögn með með viðbrögðum Orkubús Vestfjarða við úrskurði Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 6. desember.

Orkubú Vestfjarða vill að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála  taki upp úrskurð sinn frá 6. desember 2018 og  fallist á stöðvun allra framkvæmda í Reykjanesinu.

 

Tildrög málsins eru þau að deilt er um jarðhitanýtingu úr borholu í Reykjanesi. Við stofnun Orkubús Vestfjarða afhentu sveitarfélögin á Vestfjörðum Orkubúinu öll sín réttindi við stofnun þess 1977.  Orkustofnun veitti 8. okt. 2018 Ferðaþjónustunni í Reykjanesi leyfi til nýtingar á jarðhita þrátt fyrir andmæli Orkubús Vestfjarða og Ísafjarðarbæjar.

Orkubúið fór fram á það við úrskurðarnefndina að hún frestaði réttaráhrifum að leyfisveitingunni meðal málarekstur færi fram fyrir nefndinni. Úrskurðarnefndin hafnaði því 6. desember 2018 með þeim rökum „að jarðhitanýting á jörðinni Reykjanesi hafi átt sér stað í áratugi og hafi vatni verið veitt til leyfishafa um nokkurt skeið úr umþrættri borholu. Ekkert í gögnum málsins bendi til þess að hefjist vatnstaka að nýju muni hún hafa þau áhrif á auðlindina að hætta sé á slíku óafturkræfu tjóni fyrir kærendur að kæra yrði þýðingarlaus yrði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað. Hins vegar er tekið fram að slík frestun myndi hafa í för með sér tjón fyrir leyfishafa.“

Orkubú Vestfjarða hefur nú að nýju sent inn erindi til úrskurðarnefndarinnar og vill að nefndin endurkoði úrskurð sinn um frestun réttaráhrifa.

Rök Orkubúsins eru annars vegar þau að fyrir nefndina hafi verið lagðar fram rangar og ófullnægjandi upplýsingar um málsatvik og hins vegar að OV hafi fallist á að leyfishafi nýti orkuna með sama hætti og áður á meðan málið er til meðferðar  og verði því ekki fyrir neinu tjóni á meðan.

DEILA