Atvinnuleysi mældist 4,1% í janúarmánuði

Atvinnuleysi hér á landi í janúarmánuði 2017 var 4,1% samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands og sýnir samanburður mælinga fyrir janúar 2016 og 2017 að atvinnuþátttaka dróst saman um 1,3 prósentustig á milli ára. Á landinu voru að jafnaði 193.100 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í janúar 2017, sem jafngildir 80,3% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 185.300 starfandi og 7.900 án vinnu og í atvinnuleit. Fjöldi starfandi jókst um 1.400 manns á milli mánaða en hlutfall starfandi af mannfjölda lækkaði hins vegar um 2,1 stig. Atvinnulausum fjölgaði um 2.600 manns og hlutfall þeirra af vinnuaflinu hækkaði um 1,3 prósentustig.

Þegar horft er til síðustu sex mánaða þá sýnir leitni vinnuaflstalna að atvinnuleysi stendur í stað, en á síðustu tólf mánuðum hefur það lækkað lítillega eða um 0,2 prósentustig. Hlutfall starfandi síðustu sex mánuði hefur lækkað lítillega eða um 0,3 stig, en aftur á móti aukist um 0,7 stig þegar horft er til þróunar síðustu tólf mánaða.

annska@bb.is

DEILA