Í verkefnatillögu frá Viaplan til Reykhólahrepps sem send var í nóvember er áætlað að í valkostagreininguna fari 80 – 100 vinnustundir og að kostnaðurinn verði 1,2 – 1,5 milljónir króna fyrir utan virðisaukaskatt. Mögulegir fundir og kynningar eru ekki innifaldir í áætluninni og munu því bætast við kostnaðinn ef af verður.
Lilja G. Karlsdóttir lýsir verkefninu þannig í tillögu sinni:
Verkefnið snýst um valkostagreiningu fyrir tvo leiðarvalkosti nýs Vestfjarðarvegar, annars vegar leið Þ-H sem kennd hefur verið við Teigsskóg og hins vegar leið R sem þverar Þorskafjörð og liggur framhjá Reykhólum.
Markmiðið með valkostagreiningunni er að bera saman ólíka þætti eins og kostnað, umhverfisáhrif og samfélagsleg áhrif, til þess að aðstoða Reykhólahrepp að fá yfirsýn yfir fyrirliggjandi gögn og sjá hvernig samanburður á veglínum rímar við áherslur sveitarfélagsins. Sökum knapps tímaramma fyrir verkefnið er eingöngu verið að skoða fyrirliggjandi gögn og meta þau, ekki er gert ráð fyrir öflun nýrra gagna eða nýrra útreikninga á þessu stigi.
Verkefnið inniheldur eftirfarandi verkþætti:
➢ Gagnaöflun og yfirlestur
➢ Uppstilling á matsþáttum í samvinnu við sveitarfélag
➢ Stutt greinagerð (skýrsla)
➢ Gerð kynningarefnis (Power point)
Beðið er svara við fyrirspurn um hver kostnaðurinn svo varð við valkostagreininguna.