Vestfirðingum fjölgar – 15% fjölgun á Þingeyri

Mikil fjölgun varð á Þingeyri á árinu 2018..

Vestfirðingum fjölgaði um 1% eða 68 manns frá 1. jan 2018 til 1. jan 2019. Mannfjöldinn á Vestfjörðum á nýársdag var kominn aftur yfir 7000 samkvæmt því sem fram kemur á vef Þjóðskrár Íslands. Mest varð fjölgunin í Ísafjarðarbæ. þar fjölgaði íbúum um 91. Næstmest fjölgun varð í Tálknafjarðarhreppi, en þar fjölgaði um 14 manns. Þá fjölgaði um 8 manns í Bolungavík og líka í Súðavík.

Annars staðar á Vestfjörðum fækkaði íbúum. Mest varð fækkunin í Vesturbyggð eða um 26 manns og um 16 manns í Reykhólahreppi.  Fækkun varð í öllum sveitarfélögum í Strandasýslum. íbúum fækkaði um 11 manns og eru íbúar sýslunnar nú 592.

Sé breytingin skoðuð hlutfallslega þá varð mest fjölgun í Tálknafjarðarhreppi 6% og 4% í Súðavík. Fækkun varð um 6% í Reykhólahreppi og Kaldrananeshreppi og 3% í Vesturbyggð.

Tölur Þjóðskrár 1.1. 2019 eru bornar saman við tölur Hagstofunnar fyrir 1.1. 2018 í þessum samanburði. Þjóðskrá ber mannfjölda 1.1. 2019 saman við 1. des. 2017 sem er þrettán mánaða tímabil því er sá samanburður ekki notaður.  Þá voru íbúar á Vestfjörðum 6.992 en 1.1. 2018 voru þeir 6.994.

Mest varð fjölgunin á Þingeyri sé litið til einstakra þéttbýlisstaða. íbúum fjölgaði úr 244 í 281. Fjölgunin er hvorki meira né minna en 15%.

Athygli vekur nokkur fækkun í Vesturbyggð. Fækkun varð í þorpinu á Patreksfirði um 10 manns en fjölgun á Bíldudal um 9 manns. Ekki eru sundurliðaðar tölur fyrir íbúaþróun í sveitunum á Vestfjörðum, aðeins gefin upp ein tala fyrir þær.  Líklega hefur fækkunin í Vesturbyggð komið mest fram í sveitunum meðað við framangreindar upplýsingar.

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri var innt eftir ástæðum íbúafækkunar um 40 manns í Vesturbyggð sem gert er ráð fyrir í forsendum fjárhagsáætlunar fyrir 2019.

Hún svaraði því til að

„Íbúaspáin var heldur bjartsýn 2018 en flestir urðu íbúar sveitarfélagsins á árinu 1.042 talsins. Nokkur fækkun hefur orðið á íbúum og þegar spá fyrir árið 2019 var unnin stóð íbúafjöldinn í 1.025 og við það er miðað fyrir næsta ár. Fækkunina má m.a. rekja til þess að stórar fjölskyldur fluttu af svæði sem og breyting á lögheimilisskráningu einstaklinga sem ekki hafa haft fasta búsetu í sveitarfélaginu til nokkurra ára. Aðrar skýringar sýnist okkur ekki vera að finna á þessari fækkun og bindum við vonir við að íbúum muni fjölga á nýju ári.“

Mannfjöldi eftir kyni, aldri og sveitarfélögum 1998-2018 – Sveitarfélagaskipan hvers árs
2017 2018 2019 2018-2019
Alls Alls Alls breyting %
Bolungarvík Alls 908 945 953   8  1
Ísafjarðarbær Alls 3608 3707 3798  91  2
Reykhólahreppur Alls 282 275 259 -16 -6
Tálknafjarðarhreppur Alls 236 244 258  14  6
Vesturbyggð Alls 1030 1024 998 -26 -3
Súðavíkurhreppur Alls 186 196 204    8  4
Árneshreppur Alls 46 43 40  -3 -7
Kaldrananeshreppur Alls 106 109 103  -6 -6
Strandabyggð Alls 468 451 449  -2  0
6870 6994 7062  68  1
Mannfjöldi 1. janúar.
DEILA