Krabbameinsfélagið býður ókeypis fyrstu skimun fyrir krabbameinum

Húsnæðis Krabbameinsfélagsins.

Krabbameinsfélagið hefur ákveðið að ráðast í tilraunaverkefni til að kanna hvort kostnaður við skimunina hafi áhrif á þátttöku kvenna. Á undanförnum árum hefur heldur dregið úr þátttöku kvenna hér á landi í skimun fyrir krabbameinum og er hún minni en á hinum Norðurlöndunum. Miklu skiptir að snúa þeirri þróun við. 

 Félagið telur mikilvægt að skimun verði gjaldfrjáls og hefur lagt það til við stjórnvöld, ekki síst til að tryggja jafnt aðgengi að skimun. 

Tilraunaverkefnið nær til kvenna sem verða 23 ára og 40 ára á árinu og munu þær fá ókeypis fyrstu skimun fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstakrabbameini á vegum Leitarstöðvarinnar árið 2019. Tilraunin er fjármögnuð af Krabbameinsfélaginu.

 „Það er mat okkar að kostnaður kvenna geti haft áhrif á þátttöku þeirra í skimuninni og þess vegna ákvað félagið að ráðast í tilraunina með það að markmiði að kanna hvort ókeypis skimun muni auka þátttöku kvenna,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands. Þar sem um tilraunaverkefni er að ræða nær það einungis til kvenna sem fæddar eru árið 1996 og mæta í fyrsta sinn í leghálsskimun árið 2019 og til kvenna sem fæddar eru árið 1979 og mæta í fyrstu skimun fyrir brjóstakrabbameini á þessu ári.

Krabbameinsfélagið sér um skimun fyrir krabbameinum í leghálsi og brjóstum fyrir stjórnvöld. Skimunin er fjármögnuð með föstu fjárframlagi á fjárlögum og með komugjöldum kvenna sem ákveðin eru af stjórnvöldum. Fjárframlag ríkisins og komugjöldin hafa hins vegar ekki dugað til að fjármagna skimunina að fullu og hefur Krabbameinsfélagið því borið kostnað af skimuninni í mörg ár. Greiðsla kvenna er nú 4.700 krónur fyrir skimun vegna krabbameins í leghálsi og sama upphæð fyrir skimun fyrir brjóstakrabbameini (aldraðir og öryrkjar greiða 2.400 krónur).

DEILA