Áramótakveðja frá formanni Samtaka ferðaþjónustunnar

Bjarnheiður Hallsdóttir.

Ferðaþjónustuárið, sem nú rennur sitt skeið á enda, var um margt viðburðaríkt. Segja má að árið 2018 hafi markað kaflaskil. Hinum gríðarlega uppgangi síðustu ára, þar sem hvert metið á fætur öðru var slegið og litið á margra tugprósenta vöxt árlega sem sjálfsagðan, virðist nú vera lokið. Ýmsir þættir, einkum í ytra umhverfi greinarinnar – sterkt gengi krónu, hár launa- og fjármagnskostnaður – hafa valdið því að verð á íslenskri ferðaþjónustu á erlendum mörkuðum hefur sums staðar náð þeim hæðum að það hefur haft mikil áhrif á eftirspurn. Þetta ástand hefur breytt samsetningu þeirra erlendu gesta sem sækja landið heim og þar með hefur ferðahegðunin heilt yfir tekið breytingum. Atvinnugreinin hefur því staðið frammi fyrir stórum áskorunum á þessu ári – þar sem meginstefið hefur verið hagræðing í rekstri. Mest áberandi þar voru að sjálfsögðu örðugleikar íslensku flugfélaganna.

Margir eru þó þeirrar skoðunar að það hafi verið atvinnugreininni og þjóðfélaginu fyrir bestu að að nú hafi aðeins verið stigið á bremsuna. Það gefst því svigrúm til að endurskipuleggja og sinna verkefnum, sem setið hafa á hakanum meðan á mesta atganginum stóð. Þetta svigrúm þurfa bæði fyrirtækin og ekki síður hið opinbera að nýta sér.

Það er vert að nefna það hér að þrátt fyrir mikinn vöxt ferðaþjónustu á landinu síðustu ár, þá hefur okkur tekist mjög vel til. Til vitnis um það eru ánægðir gestir, en allar mælingar styðja það að ánægja þeirra með Íslandsferðina er almennt mikil. Það er vissulega rós í hnappagat íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja.

Það eru mörg verkefni aðkallandi til að styrkja ferðaþjónustuna í sessi sem burðaratvinnugrein Íslendinga til framtíðar. Má þar nefna opinbera stefnumörkun fyrir greinina í samvinnu við atvinnulífið, stórauknar rannsóknir til undirbyggja skynsamlegar ákvarðanir og einnig þarf að grípa til raunhæfra aðgerða til að þess að efla ferðaþjónustu um allt land, allt árið um kring.

Starf Samtaka ferðaþjónustunnar hefur verið mjög virkt og kraftmikið á árinu. Þau eru óteljandi málin sem samtökin þurfa og vilja láta sig varða, með hagsmunagæslu atvinnugreinarinnar að leiðarljósi. Á árinu tók ný forysta við hjá SAF, þegar undirrituð var kjörinn formaður og Jóhannes Þór Skúlason var ráðinn framkvæmdastjóri skömmu síðar. Við höfum sett það á oddinn að efla innra starf félagsins, þar sem það er grunnurinn að styrk okkar út á við. Við höfum heimsótt fjölmörg fyrirtæki bæði í Reykjavík og ekki síst á landsbyggðinni og munum halda því áfram á næsta ári. Einnig höfum við lagt okkur fram við að auka samskipti og gott samstarf við þá opinberu aðila sem sýsla með málefni ferðaþjónustunnar.

SAF fögnuðu á árinu 20 ára afmæli sínu og var að því tilefni kynnt nýtt merki og ásýnd samtakanna.

Árið 2019 bíður nú handan við hornið og við munum halda áfram að berjast fyrir hagsmunum íslenskrar ferðaþjónustu af fullum krafti og vinna að því að styrkja SAF áfram, sem samtök stærstu útflutningsatvinnugreinar landsins. Það eru vissulega blikur á lofti sem stendur – yfirvofandi eru erfiðir kjarasamningar, sem félagsmenn eru vissulega áhyggjufullir yfir. Í ljósi aðstæðna allra síðustu ára liggur fyrir að svigrúm flestra ferðaþjónustufyrirtækja til launahækkana er lítið sem ekkert og geta óábyrgir kjarasamningar haft mjög alvarleg áhrif á rekstrarforsendur þeirra. Enda hlutfall launakostnaðar óvíða hærra en í ferðaþjónustufyrirtækjum. Gengi krónu er enn sterkt og er að sveiflast meira en góðu hófi gegnir. Að vanda er alls óljóst hvernig staða gjaldmiðilsins verður á komandi misserum.

Þrátt fyrir þær ógnanir sem steðja að greininni í augnablikinu er full ástæða til að horfa björtum augum til framtíðar. Grunnurinn er traustur. Við eigum hér með landinu okkar, umhverfinu og öflugum ferðaþjónustufyrirtækjum einstaka auðlind, einstakan áfangastað sem ég er viss um að á eftir sjá íslensku þjóðinni fyrir hagsæld og velsæld til langs tíma. Forsendan fyrir því er auðvitað að við göngum um landið og náttúruna með virðingu og leggjumst öll á eitt til að varðveita auðlindina.

Stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar og starfsfólk ásamt fjölmörgum trúnaðarmönnum úr hópi félagsmanna hafa unnið mjög gott starf á árinu. Ég þakka öllu þessu fólki fyrir einlægan áhuga á að vinna ferðaþjónustunni gagn og hlakka til áframhaldandi samstarfs á nýju ári.

Fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar þakka ég kærlega fyrir samstarfið á liðnu ári og óska þér og þínum gifturíks nýs árs.

Bjarnheiður Hallsdóttir
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar

DEILA