Gallup: neikvæð áhrif réttlætanleg ef sjálfbær nýting

Ein af spurningunum sem Gallup leitaði svara við fyrir Vestfjarðastofu í nóvember 2018 naut að því hvort neikvæð áhrif á umhverfi séu réttlætanleg ef um er að ræða sjálfbæra nýtingu auðlindar. Svörin eru mjög forvitnileg. Alls voru 47% þeirra sem svöruðu sammála því en aðeins 27% ósammála. Svör 26% svarenda falla í flokkinn hvorki né.

Samkvæmt þessu mætti álykta, þar sem spuringin er borin fram á eftir spurningu um afstöðu til fiskeldis í sjó á Vestfjörðum, að þótt einhver neikvæð áhrif verði á umhverfi vegna fiskeldisins þá séu þau áhrif réttlætanleg ef að fiskeldinu er staðið á þann hátt að um sé að ræða sjálfbæra nýtingu. Til dæmis ef fiskeldið er innan marka burðarþols og það spilli ekki lífríkinu. Um það er þó ekkert fjallað í skýrslu Gallups heldur aðeins gerð grein fyrir spurningunni og svörunum.

Þegar svörin eru greind eftir kjördæmum sést að meirihlutastuðningur ( meiri en 50%) er í landsbyggðarkjördæmunum þremur, mestur í Norðvesturkjördæmi 53%. Þar eru aðeins 15% ósammála. Í hinum kjördæmunum tveimur eru 17% og 22% ósammála. Í kraganum eru líka mun fleiri sammála en ósammála 47% á móti 26%.

Önnur staða er í höfuðborgarkjördæmunum tveimur. Þar eru 39% sammála í Reykjavík suður á móti 34% ósammála og í Reykjavík norður 33% sammála en 34% ósammála. Samkvæmt þessu eru 36% Reykvíkinga sammála spurningunni en 34% ósammála.

Flokkað eftir menntun þá eru þeir sem eru sammála því að neikvæð  umhverfisáhrif séu réttlætanleg  ef um er að ræða sjálfbæra nýtingu mun fleiri í öllum þremur menntunarhópunum, grunnskólamenntun, framhaldsskólamenntun og háskólamenntun. Sammála eru frá 43 % til 51% og ósammála frá 17% til 34%.

Loks þá sýnir greiningin á svörunum eftir tekjuhópum að þeir sem eru sammála eru mun fleiri í öllum sjö tekjuhópunum. Munurinn er minnstur 11% og mestur 27%.

 

Könnunin fór fram dagana 17. – 28. nóvember 2018 Aðferð var netkönnun. Úrtak 1415 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr viðhorfahópi Gallup. 727 svör fengust.

 

DEILA