Kaupfélag Steingrímsfjarðar 120 ára á morgun

Á morgun verða liðin rétt 120 ár stofnun Kaupfélags Steingrímsfjarðar Hólmavík (KSH). Í ágripi að sögu félagsins segir að félagið muni hafa verið stofnað á fundi að Heydalsá og félagið hét upphaflega   Verslunarfélag Steingrímsfjarðar.

Kaupfélagið er það eina sem eftir er á Vestfjörðum og stendur enn í nokkrum rekstri. Rekur það verslun og byggingavörudeild á Hólmavík auk þess að eiga helmingshlut í Hólmadrangi ehf sem rekur rækjuvinnslu á Hólmavík.

Jón Alfreðsson hefur  lengst allra verið kaupfélagsstjóri eða í 41 ár frá 1968 – 2009.  Jón segir að upphaflega verslunarleyfið, sem gefið var út 1899 af Marinó Hafstein, sýslumanni í Bæ í Hrútafirði, sé enn til.

Núverandi kaupfélagsstjóri er Viktoría Rán Ólafsdóttir og segir hún að „innrammað á borði kaupfélagsstjóra er svo formlegt verslunarleyfi veitt til þess að stunda verslun í kauptúninu Hólmavík sem og innan Strandasýslu.  Gjalddatakan fyrir þessu leyfi voru þá heilar 50 kr. Bréfið er titlað „Borgarbréf fyrir verzlunarfélag Steingrímsfjarðar til verzlunar í Hólmavík við Steingrímsfjörð“. Það er Marino Hafstein sýslumaður í Strandasýslu sem „gjörir kunnugt“ um ofangreint.“

Mikill bruni varð á Hólmavík 1931 og glötuðust þá öll stofngögn félagsins.

Á morgun verður afmælisins minnst með með smá kökuboði og happadrættisútdrátt í verslunarhúsnæði kaupfélagsins þar sem allir eru velkomnir, en Viktoría segir að til standi  að hafa alvöru afmæli í félagsheimilinu með tilheyrandi gleði þegar vorar.

Jón Alfreðsson.
Viktoría Rán Ólafsdóttir.
DEILA