Samstarfsnefnd sveitarfélaganna Tálknafjarðar og Vesturbyggðar hélt fund í byrjun desember og fjallaði meðal annars um vegamálin. Minnti nefndin á að sveitarfélögin þrjú í Barðastrandasýslu Vesturbyggð, Tálknafjörður og Reykhólar hafi um áratugaskeið staðið saman um áherslur í vegamálunum, en nú hafi Reykhólahreppur vikið af leið.
Í ályktun fundarins segir:
Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps leggur mikla áherslu á mikilvægi þess að bæta vegasamgöngur við sunnanverða Vestfirði sem allra fyrst. Sú staða sem komin er upp vegna þess að Reykhólahreppur hefur dregið að taka ákvörðun um veglínu nýlagningar á Vestfjarðavegi 60 setur allar áætlanir um uppbyggingu vegarins og fjármögnun framkvæmda í uppnám.
Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps harmar það rof í áratuga samstöðu þessara þriggja sveitarfélag um vegabætur á Vestfjarðarvegi 60, sem virðist vera orðið með drætti á ákvörðun Reykhólahrepps og hvetur sveitarstjórn Reykhólahrepps til að standa við fyrri ákvörðun sveitarstjórnar þannig að framkvæmdir getir hafist sem allra fyrst. Samgöngur við sunnanverða Vestfirði samkvæmt Þ-H leiðinni eru gríðarlega mikilvægar og brýnt að þar takist vel til með veghönnun og lagningu með framtíðarnotkun vegarins í huga, öllum íbúum sunnanverðra Vestfjarða til hagsbóta.”