Forsvarsmenn Vesturbyggðar hafa unnið ötullega að því á síðustu mánuðum að tryggt verði að vegalagningu Vestfjarðavegar um Gufudalsveit verði lokið hið fyrsta. Hefur sú vinna farið fram á ýmsum stöðum og í samvinnu við marga aðila eins og Fjórðungssamband Vestfjarða en fulltrúi Vesturbyggðar situr í stjórn Fjórðungssambands Vestfjarða og er formaður samgöngunefndar Fjórðungssambandsins.
Í ágúst og september áttu forsvarsmenn Vesturbyggðar fundi með umhvefis- og samgöngunefnd Alþingis og atvinnuveganefnd Alþingis þar sem ítrekað var mikilvægi þess að vegabótum á Vestfjarðavegi yrði hraðað. Var málið svo sérstaklega rætt með þingmönnum Norðvesturkjördæmis á Ísafirði í byrjun október. Þá var málið einnig rætt á haustþingi Fjórðungssambands Vestfjarða á Ísafirði og ályktað sérstaklega þar um:
Ályktun
Þing Fjórðungssambandsins krefst þess að stjórnvöld standi við fyrirheit um að samgöngubætur á Vestfjörðum verði í forgangi í samgönguáætlun til skemmri og lengri tíma litið. Samfélag Vestfjarða líður fyrir það að vegir eru á mörgum stöðum árum og áratugum á eftir því sem gerist í nútímasamfélagi.
Brýnustu úrlausnarefnin í vegagerð á Vestfjörðum 2018-2023 eru:
• Að vegagerð um Gufudalssveit á Vestfjarðavegi 60 verði boðin út án frekari tafa.
Þá hefur bæjarstjórn Vesturbyggðar fjallað um málið á fundum sínum og ályktað þar um í október sl.:
Ályktun:
Bæjarstjórn Vesturbyggðar leggur áherslu á að framkvæmdum í samgöngumálum í sveitarfélaginu verði hraðað og þeim verði tryggt nægjanlegt fjármagn. Íbúar svæðisins hafa beðið í tugi ára eftir mikilvægum samgöngubótum og þolimæði þeirra og rekstraraðila er því löngu þrotin. Skorar bæjarstjórn Vesturbyggðar á Alþingi að í samgönguáætlun verð tryggðar mannsæmandi samgöngur á svæðinu. Með aukinni ativnnuuppbyggingu og fjölgun íbúa er nauðsynlegt að tryggja viðunandi samgöngur til og frá svæðinu sem og innan þess. Bæjarstjórn Vesturbyggðar leggur ríka áherslu á að fjármögnun vegna framkvæmda við Vestfjarðaveg um Gufudalssveit verði tryggð og krefst þess að vegalagning hefjist strax.
Þá ítrekaði Vesturbyggð í umsögn sinni um samgönguáætlun 2019-2023 og á fundi með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í nóvember mikilvægi þess að vegabótum verði flýtt og umhverfis- og samgöngunefnd hvött til þess að beita sér sérstaklega í málinu. Þá hefur samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfjarða fundað sérstaklega með sveitarstjórn Reykhólahrepps um málið og ítrekað mikilvægi þess að vegabótum yrði hraðað vegna þeirra gríðarlegu hagsmuna sem Vestfirðir og þá sérstaklega sunnanverðir Vestfirðir hafa af því að vegabótum um Vestfjarðaveg verði lokið hið fyrsta. Samgöngunefnd Fjórðungssambandsins hefur einnig fundað með samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurði Inga Jóhannessyni vegna málsins og ítrekað við hann mikilvægi þess að vegabætur um Vestfjarðaveg dragist ekki enn frekar.
Þá ályktaði Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps í byrjun desember um þá alvarlegu stöðu sem uppi er vegna vinnslu málsins af hálfu Reykhólahrepps.
Ályktun:
Fulltrúar Samráðsnefndar Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps eru sammála um nauðsyn þess að flýta endurnýjun vegarins um Mikladal milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar sem kostur er. Brýn þörf er orðin á endurnýjun vegarins vegna aldurs hans og ástands sem samræmist ekki þeim kröfum sem gerðar eru til vega í dag. Miklidalur er fjölfarnasti fjallvegur Vestfjarða og nauðsynlegt að tryggja öruggar samgöngur á þessari leið sem kostur er vegna mikilvægis hennar sem tenging milli þéttbýlisstaða á sunnanverðum Vestfjörðum.
Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps leggur mikla áherslu á mikilvægi þess að bæta vegasamgöngur við sunnanverða Vestfirði sem allra fyrst. Sú staða sem komin er upp vegna þess að Reykhólahreppur hefur dregið að taka ákvörðun um veglínu nýlagningar á Vestfjarðavegi 60 setur allar áætlanir um uppbyggingu vegarins og fjármögnun þessara framkvæmda í uppnám. Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps harmar það rof á áratuga samstöðu þessara þriggja sveitarfélaga um vegabætur á Vestfjarðavegi 60, sem virðist vera orðið með drætti á ákvörðun Reykhólahrepps og hvetur sveitarstjórn Reykhólahrepps til þess að standa við fyrri ákvörðun sveitarstjórnar þannig að framkvæmdir geti hafist sem allra fyrst. Samgöngur við sunnanverða Vestfirði samkvæmt Þ-H leiðinni, eru gríðarlega mikilvægar og brýnt að þar takist vel til með veghönnun og lagningu með framtíðarnotkun vegarins í huga, öllum íbúum sunnanverðra Vestfjarða til hagsbóta.
Bæjarstjórn Vesturbyggðar tók undir ályktun samráðsnefndarinnar og bætti við á fundi sínum 12. desember sl.:
Ályktun:
Í ljósi tíðinda dagsins og niðurstöðu „valkostagreiningar“ Reykhólahrepps vill Bæjarstjórn Vesturbyggðar bæta við eftirfarandi:
Hver er réttur samfélagsins á sunnanverðum Vestfjörðum þegar kemur að skoðun á samfélagslegum áhrifum í valkostagreiningunni? Er kostnaður af frestun framkvæmda og áhrif þess á samfélagið á Vestfjörðum einn matsþátta, eða er enn og aftur réttur okkar fyrir borð borinn þegar kemur að þessum mikilvægu samgöngubótum?
Bæjarstjórn Vesturbyggðar og sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps funduðum sérstaklega um málið í gær og sendu ákall á íbúa Reykhólahrepps að leggjast á árar með íbúum Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps að ljúka við endurnýjun Vestfjarðavegar.
Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hefur nú boðað fulltrúa sveitarfélaganna Vesturbyggð, Tálknafjarðarhrepp og Reykhólahrepp ásamt þingmönnum norðvesturkjördæmis til fundar í Reykjavík 3. janúar nk. vegna málsins.
Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri.