Arnfirðingafélagið: skötuveisla á morgun

Mynd af vef Arnfirðingafélagsins.

Arnfirðingafélagið á höfuðborgarsvæðinu býður upp á veglega skötuveislu á morgun í Haukahúsinu í Hafnarfirði. Veislan hefst kl 13 og stendur til kl 16.

Haft er hlaðborð þar sem verður skata, saltfiskur, síld, reyktur lax í boði Arnarlax, súr hvalur og hvalur í kryddlegi. Verð er 3.000 kr.

Guðmundur Bjarnason sagði í samtali við bb.is að þetta væri í 11. sinn sem félagið stæði fyrir skötuveislu. Hún hefði fyrst verið haldin árið 2009.  Aðsókn hefur verið góð, segir guðmundur , frá 120 – 190 manns.

Arnfirðingafélagið var stofnað í febrúar 1964 í Reykjavík og stóðu að því brottfluttir Bílddælingar og Arnfirðingar. Í gegnum árin hefur sólarkaffið borið hæst í starfsemi félagisins en nú hefur skötuveislan bæst við, segir Guðmundur Bjarnason. Sólarkaffið er haldið fyrsta sunnudag í febrúar og er þegar farið að huga að því næsta.

Nýlega var haldinn aðalfundur Arnfirðingafélagsins og kosin ný stjórn.“ Ég var formaður í 8 ár og síðan tók Sólveig Ólafsdóttir við í 2 ár. Nú kemur yngra fólk í stjórnina.“

En það er eitt sem ekki má í starfi félagins, segir Guðmundur, að hafa eitthvað þann 18. febrúar. Þá var Þormóðsslysið og við minnust þess með þessum hætti. Þann dag árið 1943 fórst 31 maður með skipinu Þomóður, margir frá Bíldudal í hörmulegu sjóslysi við Garðskaga.

DEILA