Takk Inga Hlín fyrir áskorunina!
Ég minnist þess að hafa setið í stofunni í íbúðinni sem ég bjó í á besta stað í höfuðborginni og hugsað: ,,Hver nennir þessu? Hver nennir að standa í svona rugli? Hver nennir að sitja stopp í bílnum sínum á miðri Miklubrautinni í skítköldum bíl á leið í vinnu? Á hverjum degi!” Ég átti þó eftir að eiga heima í höfuðborginni í tvö ár til viðbótar og verða faðir í millitíðinni. Ég keyrði á hverjum degi til vinnu af Vesturgötu í Vesturbæ til Hafnarfjarðar með viðkomu hjá dagforeldri og seinna í leikskólanum. Ég reyndi að telja sjálfum mér trú um það að sitja í bílnum í mínum eigin hugarheimi væri á vondri íslensku svona ,,me-time“, vá hvað maður getur verið klikkaður!
Ég held því hreinlega að mér hafi aldrei verið ætlað að búa í svona heimi, heimi höfuðborgar. Konan mín, Sigurbjörg Kristjánsdóttir, er líka af landsbyggðinni og meira að segja héðan frá Patreksfirði. Það varð úr að sumarið 2013, nýbúin að eignast annað barn, ákveðum við fjölskyldan að flytja vestur á Patreksfjörð þar sem ég hafði fengið atvinnu sem sjúkraþjálfari á staðnum. Ég því Margréti Brynjólfsdóttur sjúkraþjálfara margt að þakka í þessum efnum. Á þessum tíma er mikill uppgangur á sunnanverðum Vestfjörðum og er enn. Við höfðum líka komið nokkrum sinnum í heimsókn til tengdaforeldra minna sem eru búsett hér á Patreksfirði og ég kunni vel við staðinn og fólkið.
Yndisleg tengdamóðir mín á líka risastóra fjarstýringu (ímyndaða). Með þessari fjarstýringu hefur henni tekist hið ómögulega. Hún er búin að lokka öll þrjú börnin sín heim á Patreksfjörð með sínar fjölskyldur eftir að hafa útskrifast úr sínum skólum og háskólum. Því á ég henni líka margt að þakka, þ.e.a.s. tengdamóður minni en ekki fjarstýringunni.
Svo því sé haldið til haga er ég austfirðingur í húð og hár, sem búið hefur í öllum landshlutum. Ég er því öllu vanur og til dæmis vanur því að búa í í firði í faðmi fjalla og í kommúnu með hafinu. Það er ekki allra að búa við slíkar aðstæður. Foreldrar mínir búa í Neskaupstað og þar er þetta alveg eins en bara akkúrat öfugt – út fjörð er inn fjörð og öfugt ásamt því að það vantar efstu 30% á fjöllinn hér fyrir vestan og hægt að spila heilu fótboltaleikina á toppum fjallanna á meðan þú situr klofvega á egginni fyrir austan með annan fótin í Norðfirði og hinn í Mjóafirði.
Viljandi hef ég sleppt því að tala um náttúrufegurðina hér fyrir vestan. Skemmst er frá henni að segja þannig að hún er efni í annan pistil. Þó allt snúi öfugt hér (fyrir mér) er svæðið með eindæmum fallegt og inniheldur nokkrar af fallegustu náttúruperlum Íslands. Eins og Inga Hlín nefndi í sínum pistli; ,,er það hafið eða fjöllin? Eða kannski fólkið?“ Hér er yndislegt að vera, hér er rólegt og gott umhverfi fyrir börn, hér er auðvelt að skipta máli í samfélaginu (hafir þú áhuga á því á annað borð), hér er gott fólk með háleit markmið og náttúran hvergi fegurri. Hvað þarf að segja meira?
Að lokum langar mig að skora á Davíð Rúnar Gunnarsson að svara því af hverju hann flutti vestur?
Páll Vilhjálmsson
Íþrótta- og tómstundafulltrúi í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi