Strandabyggð: fjárfestingar 68,5 milljónir króna

Frá Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti fjárhagsáætlun 2019 í síðustu viku.

Rekstrarniðurstaða A og B hæuta er áætluð 10,9 milljónir króna. Útsvar verður 14,52%. Gjaldskrár hækka almennt um 3,5% nema gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpeyðingu í Strandabyggð sem hækkar um 8,0%. Fasteigangjöld verða óbreytt hvað álagningarhlutfall varðar. A-gjald fasteignaskatts í Strandabyggð verður 0,5% af fasteignamati, B-gjald verður 1,32% af fasteignamati og C-gjald verður 1,51% af fasteignamati. Holræsagjald verður 0,25% af fasteignamati og vatnsskattur 0,3% af fasteignamati. Lóðarleiga verður 2,5% af fasteignamati lóðar. Reglur um afslátt á fasteignaskatti til eldri borgara og öryrkja eru óbreyttar frá 2018.

Framkvæmdaáætlun 2019

Haldið verður áfram í verkefninu Ísland ljóstengt og unnið að því að  ljósleiðaravæða í dreifbýli  á Langadalsströnd yfir í Djúpi. Áfram er unnið að undirbúningi vegna hitaveitu á Hólmavík. Sett verður niður nýtt stálþil í höfnina og unnið áfram að gatnaframkvæmdum innanbæjar á Hólmavík.  Byggja á nýja fjárrétt í Staðardal, unnið verður áfram að viðhaldi á skólahúsnæðum, endurbætur í íþróttamiðstöð og í félagsheimili auk þess sem fjármunir verða settir í hönnun á lóð leikskóla og á opnum svæðum.  Komið verður upp eftirlitsmyndavélum við höfn og í Íþróttamiðstöð og unnið verður að endurbótum á geymslu sveitarfélagsins í Skeljavík.  Gert er ráð fyrir byggingu dælustöðvar hjá Vatnsveitu og umhverfisátaki.

Áætlaðar fjárfestingar vegna framkvæmda árið 2019 hljóða upp á 68,5 milljónir.

DEILA