Samningur milli Háskólaseturs Vestfjarða og Háskólans á Akureyri vum meistaranám ar endurnýjaður í vikunni
Sjávarbyggðafræði – nýtt nám
Fyrsti samningur Háskólaseturs Vestfjarða og Háskólans á Akureyri um meistaranám var gerður 1. fenrúar 2008 og náði hann til meistaranámsins í Haf- og strandsvæðastjórnun sem hófst það sama ár. Á aðalfundi Háskólaseturs árið 2013 var samningurinn endurnýjaður og þá með viðbótum um meistaranám í Sjávartengdri nýsköpun. Samstarfið við Háskólann á Akureyri hefur nú verið endurnýjað í þriðja sinn og nú með viðbótum sem ná yfir nýtt meistaranám í Sjávarbyggðafræði.
Samningurinn var undirritaður af Peter Weiss forstöðumanni Háskólaseturs og Eyjólfi Guðmundssyni rektor Háskólans á Akureyri að loknum fundi þeirra og framkvæmdastjóra háskólaskrifstofu, Hólmari Svavarssyni.
Á vefsíðu Háskólaseturs Vestfjarða er sagt frá ferð nokkurra starfsmanna Háskólasetursins til Akureyrar í vikunni:
Þegar samskipti Háskólaseturs og Háskólans á Akureyri síðustu tíu ár eru skoðuð sést vel að mikið traust og skilningur hefur byggst upp á milli þessa aðila og að mikil velvild ríkir hjá HA í garð Háskólaseturs. Slíkt samband auðveldar alla samningagerð, þar með talið endurnýjun samnings um kostnaðarliði og kjör.
Ferðin var líka nýtt í margskonar fundarhöld, formleg og óformleg. Þótt samstarf stofnana tveggja sé náið eru fjarlægðir miklar og því kærkomið að fá tækifæri til að eiga samskipti við samstarfsfólk á annan hátt en í gegnum síma og tölvupósta. Catherine Chambers, fagstjóri meistaranáms, og Sigurður Halldór Árnason, nýráðinn verkefnastjóri meistaranáms, funduðu með fjölda samstarfsaðila við HA um frekari samstarfsmöguleika í framtíðinni í tengslum við meistaranámið hvað rannsóknir og kennslu varðar. Í því sambandi má nefna sviðin tvö sem hýsa meistaranámsleiðirnar, Viðskipta- og raunvísindasvið og Hug- og félagsvísindasvið en einnig Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri og alþjóðlega meistaranámið Heimskautaréttur.
Margrét Björk Arnardóttir, kennslustjóri Háskólaseturs fundaði með skrifstofustjórum viðskipta- og raunvísindasviðs og hug- og félagsvísindasviðs, starfsfólki bókasafns, prófstjóra og starfsfólki Kennslumiðstöðvarinnar. Einnig fékk kennslustjóri tækifæri til að sitja námskeið um Canvas kennsluumhverfið sem til stendur að Háskólasetur Vestfjarða taki upp á næsta skólaári. Enn frekara samstarf er fyrirséð við Kennslumiðstöð en þar er haldið utan um allar nýjungar varðandi nám og kennslu.
Starfsfólk Háskólaseturs Vestfjarða þakkar Háskólanum á Akureyri fyrir góðar móttökur og hlakkar til að efla það góða samstarf sem er á milli stofnananna tveggja í framtíðinni.