Kjarkleysi ráðherra – Framtíð eldis á Vestfjörðum

J. Bæring Pálmason.

Fyrir um 2 mánuðum síðan lagði Teitur Björn Einarsson varaþingmaður, fyrirspurn fyrir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í nokkrum liðum þar sem spurt var út í áhættumat Hafransóknarstofnunar á erfðablöndun í laxi. Fyrr í þessari viku svaraði ráðherra loks fyrirspurninni skriflega og getið þið lesið svarið í heild í hlekknum neðst í þessum pósti.

Í svörum Kristjáns Þórs var tvennt sem vakti sérstaka athygli mína. Í spurningu 3 spyr Teitur Björn hvort ráðherra telji að komið hafi fram nýjar upplýsingar í öðrum rannsóknum eftir að áhættumatið kom út í júlí 2017 eða athugasemdir sérfræðinga við forsemdur áhættumatsins sem gefi tilefni til þess að endurskoða áhættumatið. Svarið er svo í sama tóni og kjarklausum stjórnmálamanni sæmir, skuldinni skellt á embættismanninn með því að segja: „Framangreind rannsókn gefur ekki tilefni til breytinga á forsendum útgefins áhættumats erfðablöndunar að mati Hafrannsóknastofnuna.“

Hitt atriðið sem vakti athygli mína var niðurstaða bæði ráðherrans og Hafró. Teitur Björn spyr hvaða áhrif það hefði á áhættumatið að setja stærri seiði í kvíar sem hefðu enn minni möskvastærð á netum sínum. Svarið er: „Notkun stærri seiða og hertar reglur um möskvastærð munu hafa áhrif til minna stroks og þar með á áhættumat. Fyrir liggur að í útgefnum leyfum eru ekki slík skilyrði.“

Ég veit að ég er ekki skarpasti hnífurinn í skúffunni en common, fyrst segja þeir ekki komin fram nein rök fyrir uppfærslu áhættumatsins en koma svo sjálfir með rökin fyrir uppfærslunni. Til að toppa svo vitleysuna í sjálfum sér þá þykjast þeir ætla að láta það þvælast fyrir sér að ekki sé nein krafa í þeim leyfum sem búið er að gefa út nú þegar að leyfishafar þurfi að uppfæra búnað sinn í samræmi við hertar öryggisreglur. Þegar Dóri frændi keypti súkkuna sína nýja árið 82 voru engar kröfur um að munstur dekkja þyrfti að vera að lágmarki 5mm, afhverju má hann þá ekki keyra í dag á sléttum dekkjum. Þegar flökunarvélarnar komu til landsins árið 84 voru engar kröfur um að á þeim væru hlífar sem kæmu í veg fyrir að menn gætu vísvitandi troðið höndum sínum í hnífana, afhverju er þá vinnueftirlitið að banna notkun þessara véla nema slíkum hlífum verði komið fyrir.

Ráðherra hefur fulla heimild til þess að segja Hafró að endurreikna áhættumatið miðað við þær forsemdur sem hann biður um að séu uppfærðar og Hafró ber skilda til að uppfæra matið í samræmi við þær forsemdur. Ráðherra getur meira að segja sagt við Hafró, hvað þarf til svo leyfa megi eldi í Ísafjarðardjúpi og Hafró verður þá að finna út hvaða forsemdum þurfi að breyta svo hægt sé að leyfa eldið.

Á fundi sem Kristján Þór hélt með sjálfstæðismönnum á Ísafirði fyrir nokkrum vikum síðan kvartaði Kristján Þór yfir því að hann væri oft sagður kjarklaus og þyrði ekki að taka á málum og sagði það þvælu. Því spurði ég hann hvort þingmenn væru svo kjarklausir að þeir hefðu ekki kjarki í að taka af skarið í eldismálum. Svar Kristjáns Þórs var einfalt, já þeir þora ekki að taka þá áhættu. Af þeim svörum að dæma sem Kristján Þór setur fram við fyrirspurn Teits Björns er í mínum huga mjög augljóst að Kristján Þór er einn af þessum kjarklausu þingmönnum sem ekki þora að taka af skarið.

Á fundi sem Arctic Fish hélt í Edinborg á fimmtudagskvöldið upplýsti Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar að í könnun sem gerð hefði verið á landsvísu, hefði verið spurt hversu jákvæður eða neikvæður svarandi væri fyrir fiskeldi á Vestfjörðum. Rúm 25% voru mótfallin eldinu, um 50% voru fylgjandi því og restinni var alveg sama. Semsagt yfir 70% svarenda voru ekki á móti eldinu. Ætla alþingismenn virkilega að leyfa þessum 25% að eyðileggja fyrir okkur Vestfirðingum þá jákvæðni og framtíðarsýn sem verið hefur yfir okkur síðustu ár?

Leyfum laxeldi á Vestfjörðum, en setjum fyrir því skilyrði. Við Vestfirðingar viljum lifa með náttúrunni, í sátt við hana og nýta hana á skynsamlegan hátt. Náttúran er það sem færir okkur mat á diskinn, við höfum engan hag af því að eyðileggja hana.

https://www.althingi.is/altext/149/s/0681.html

J. Bæring Pálmason

DEILA