Héraðsdómur Reykjaness felldi í gær dóm í máli Náttúruverndar 2 málsóknarfélags gegn Matvælastofnun. Málið var höfðað til ógildingar á rekstrarleyfi í Reyðarfirði sem Laxar fiskeldi ehf fengu 2012 til sjókvíaeldis. Kærendur voru ýmsir aðilar sem eiga það sammerkt að leggjast með öllu gegn laxeldi í sjó.
Voru lagðar fram kærur í mörgum liðum og tók dómarinn á þeim hverju á fætur öðrum. Niðurstaða dómarans var að sýkna Matvælastofnun og Laxa fiskeldi ehf af öllum kröfum.
Eitt atriði vekur sérstaka athygli í þessu máli. Það er sú krafa kærenda að rekstrarleyfið yrði fellt úr gildi þar sem ekki hafði farið fram valkostagreining til þess að bera saman við sjókvíaeldið. Eins og enn er í fersku minni felldir úrskurðarnefnd um umhverfis og auðlindamál nýlega úr gildi bæði rekstrar- og starfsleyfi Arctic Fish og Arnarlax í Tálknafirði og Tálknafirði vegna skorts á þessum samanburði við gerð umhverfismats.
Um þetta atriði segir í dómnum að skortur á slíkum samanburði geti verið ógildingarannmarki. en hins vegar hafi komið fram fyrir dómnum að notkun á geldlaxi, lokuðum sjókvíum eða landeldi hefðu ekki verið raunhæfir möguleikar þegar leyfið var veitt, sumir á tilraunastigi og aðrir ómögulegir og geti því skortur á valkostamatinu ekki leitt til ógildingar á rekstrarleyfinu.
Þetta er í fullkominni andstöðu við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar, sem mun verða borin undir dómstóla.