Vestri – Hjólreiðadeild stofnuð í Vestra

Hjólreiðar eru í mikilli sókn á Íslandi og eru Ísafjörður og nærsveitir ekki undanskildar. Síðustu misseri hefur borið á áhuga á að stofna formlegan félagsskap um íþróttina og þann 5. september komu á þriðja tug hjólreiðamanna saman á Hótel Horni til stofnfundar. Þar var ákveðið sækja um aðild að Vestra og bætast við fjölbreytta flóru undirdeilda félagsins. Á dögunum samþykkti aðalstjórn Vestra umsókn hjólreiðafólksins. Deildin mun starfa undir merkjum almenningsíþróttadeildar þar til hún verður formlega stofnuð á næsta aðalfundi Vestra sem verður haldinn fyrir 31. mars n.k.

Markmið hjólreiðadeildarinnar er að auka velferð hjólreiða á Vestfjörðum, standa fyrir æfingum og fræðslu, fjölga hjólurum og stuðla að brautaruppbyggingu á svæðinu.

Mikil uppbygging hefur verið í fjallahjólreiðum á Vestfjörðum og er komin margra kílómetra löng braut frá Breiðadalsheiði og niður Hnífana sem unnin var í sjálfboðaliðavinnu af frumkvæði áhugasamra um fjallahjólreiðar. Haldið var hjólreiðamót í brautinni síðastliðið sumar sem heppnaðist vel en um hundrað þáttakendur mættu vestur ásamt fjölskyldum og vinum til að taka þátt.

Hjólreiðadeildin ætlar að standa fyrir námskeiðum og viðburðum í vetur og sumar. Fyrsti viðburðurinn „Skild’a vera jólahjól“ verður í kvöld á Dokkunni milli 17-19.

Deildin er opin öllum, ungum sem öldnum. Stjórn hvetur alla sem hafa áhuga á að taka þátt í uppbyggingu hjólreiðasamfélags á Vestfjörðum, til að skrá sig í félagið.

Í stjórn deildar eru:

Þórdís Sif Sigurðardóttir

Heiða Jónsdóttir

Viðar Kristinsson

Nanný Arna Guðmundsdóttir

Georg Haney

DEILA