Reglubundið samráð um þjónustu við fólk með geðrænan vanda

Að loknum samráðsfundi í velferðarráðuneytinu.

Fyrsti fundur velferðarráðuneytisins og fulltrúa notenda geðheilbrigðisþjónustu var haldinn í ráðuneytinu í gær. Fundir sem þessi verða haldnir tvisvar á ári til að skapa farveg fyrir virkt samráð við notendur hvað varðar stefnumótun og veitingu þjónustu. Til fundar við sérfræðinga ráðuneytisins komu fulltrúar Samráðsvettvangs geðúrræða á höfuðborgarsvæðinu, Hugarafls og Öryrkjabandalags Íslands.

Efnt er til þessa samráðs í kjölfar fundar sem Samráðsvettvangur geðúrræða á höfuðborgarsvæðinu átti með Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í maí síðastliðnum. Á þeim fundi kynnti hópurinn hugmyndir sínar um samstarf í þágu einstaklingsbundinnar, þverfaglegrar og samfelldrar þjónustu við fólk með geðrænan vanda og bauð fram aðstoð sína og samráð við þróun þjónustunnar og stefnumótun í málaflokknum.

Í tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu segir að markmiðið er að þessir gagnkvæmu samráðsfundir nái að tengja betur saman notendur geðheilbrigðisþjónustu og ráðuneytið og byggja þannig upp trausta samvinnu hvað varðar stefnumótun og veitingu þjónustu. Áhersla verður lögð á lausnamiðaða samvinnu með réttindi og þarfir notenda að leiðarljósi.

DEILA