Opna kaffihús í Vínarborg

Harpa og Steff í dyragættinni á hinu nýopnaða Home Café í Vínarborg

Finna má ævintýraglaða Íslendinga víða um heim við hin ýmsu störf og framkvæmdir. Vestfirðingar eiga sannarlega til líkt og aðrir að finna sér sitt annað „heim“ í stóra heiminum og jafnvel bókstaflega. Fyrir skömmu sögðum við frá Bolvíkingnum Hauki Vagnssyni sem nú rekur Íslendingabarinn á Pattaya í Tælandi og nú hefur Ísfirðingurinn Harpa Henrysdóttir ásamt eiginkonu sinni Steff Hilty opnað kaffihús í Vínarborg í Austurríki og á báðum stöðum má næla sér í íslenskar veitingar í nýju umhverfi fjarri Fróni.

Í dag opnuðu þær Harpa og Steff kaffihúsið Home Café í menningarborginni Vín. Undanfarna mánuði hafa þær unnið hörðum höndum að því að koma staðnum í rétt horf, en áður var þar til húsa írsk krá og þurfti talvert að taka til hendinni til að gera staðinn að þeim huggulega stað sem þær dreymdi um.

Þær hjónin fluttu til Vínar síðasta sumar ásamt dætrunum Sigrúnu Aðalheiði og Hjördísi Önnu, sem báðar eru grunnskólanemar og byrjuðu í skóla á nýjum slóðum síðasta haust. Harpa og Steff voru með skýr markmið að opna sinn eigin veitingastað í borginni áður en þær héldu frá Ísafirði, þar sem Steff hafði um hríð glatt munna og maga viðskiptavina Bræðraborgar með eldamennsku sinni og Harpa kenndi við grunnskólann. Eftir að hafa fundið heppilegt húsnæði var ráðist í framkvæmdir upp úr áramótum. Þá voru þær þegar búnar að ráða starfsfólk með einni auglýsingu á Fésbókarsíðu Íslendingafélagsins í Austurríki. Hafa því allir starfsmenn Home Café tengingu við Ísland, annað hvort hafa þeir búið hér á landi eða eru Íslendingar, þeirra á meðal er Ísfirðingurinn, Elisabeth Þorbergsdóttir. Það er vel við hæfi þar sem áherslan í matnum er íslensk, með heimagerðar og huggulegar veitingar í fyrirrúmi að sögn Hörpu.

Það er alveg sama hvar maðurinn er í heiminum staddur, alls staðar er gott að eiga góða að og segir Harpa að framkvæmdirnar við staðinn hafi fyrst komist á almennilegan rekspöl er foreldrar hennar Henry Bæringsson, sem dóttirin kallar stórvirku vinnuvélina og Jóna Benediktsdóttir, sem tók að sér barnapíustörf, komu til þeirra eftir áramót

Íslenskar myndir úr Góða hirðinum prýða veggina

in. Framkvæmdirnar fóru á flug og var sóðalega búllan hreinsuð burt með öllu og hratt og örugglega fæddist fallegt kaffihús. Þær Harpa og Steff hafa báðar áhuga á því að gefa gömlum hlutum nýtt líf og voru því flest húsgögn og innanstokksmunir, sem eru frá sjöunda og áttunda áratugnum, meira og minna allt keypt í búð sem heitir Carla, sem er eins og austurrísk blanda af Góða hirðinum og Hjálpræðishersbúðunum. Veggina prýða svo íslensk landslagsmálverk og kort sem keypt voru í Góða hirðinum áður en haldið var frá Íslandi.

Steff við matseldina

Harðfiskur frá Finnboga og salt frá Saltverki

Í Vínarborg búa um 150 Íslendingar sem nú geta svalað hluta af heimþránni með því að komast í alvöru íslenskan mat á nýjum heimaslóðum. Íslendingafélagið verður með bókaklúbbinn sinn á staðnum og í framtíðinni fleiri viðburði á vegum félagsins. Staðurinn er þó sannarlega ekki einvörðungu hugsaður sem félagsmiðstöð Íslendinga í Vínarborg, heldur suðupottur þar sem menningarheimar mætast í mat og selskap.

Af þeim íslensku veitingum sem boðið er upp á má nefna að ferskan fisk fá þær sendan vikulega frá Íslandi, harðfisk frá Harðfiskverkun Finnboga á Ísafirði, salt frá Saltverki og rabbbarasultu frá Kjarnavörum fyrir bakkelsið. Svo geta gestir gætt sér á íslenska bjórnum Einstök, ásamt því sem boðið er upp á bjór frá bruggfyrirtækinu Brew age, sem rekur rætur sínar til fjögurra austurrískra stráka sem byrjuðu að brugga í bílskúrnum heima hjá sér með það góðum árangri að í dag reka þeir öflugt bruggfyrirtæki með fjölmörgum öltegundum. Vínið kemur frá fjölskyldu sem ræktar litla vínekru rétt fyrir utan borgina, en Steff komst í kynni við vínbóndann er hún beið einn daginn eftir sporvagninum sem hafði tafist vegna þess að einhver lagði bílnum sínum fyrir teinana. Hún settist þá inn á veitingastað hjá stoppistöðinni á meðan hún beið og fékk sér vínglas. Hún lendir þar á spjalli við mann sem kemur þar inn með vínsendingu og kom þá í ljós að þar var á ferðinni vínbóndinn sjálfur og úr varð nýtt viðskiptasamband og sér vínbóndinn þeim nú fyrir öllu því rauðvíni, hvítvíni og líkjörum sem boðið er upp á á Home Café. Þar er svo boðið upp á úrvals kaffi, sem er brennt og malað í kaffibrennslu Coffee pirates sem er staðsett í sömu götu og þá kemur mjólkin í kaffið beint frá býli rétt utan við borgina.

Staðurinn er hinn huggulegasti eftir miklar endurbætur

Kaffihúsið sem tekur um fimmtíu manns í sæti er í 9. hverfi Vínarborgar sem er frekar miðsvæðis, það liggur að miðborginni með mjög góðar samgöngur allt í kring svo ekki tekur nema um sjö mínútur að taka sporvagninn úr miðbænum til þeirra Steff og Hörpu í kaffi og kruðerí.

Aðlögun með ágætum

„Fjölskyldan er að aðlagast ágætlega í borginni. Það er búið að vera nokkuð undarlegt fyrir mig að vera ekki að kenna neitt, nema bara mínum eigin börnum, sem eru orðin afar leið á stærðfræðistöngli móður sinnar, en það stendur til bóta þar sem ég er aðeins að taka að mér smá kennslu í íslensku hérna svona til hliðar.“ Segir Harpa aðspurð að því hvernig fjölskyldan aðlagaðist að nýjum heimkynnum: „Stelpurnar eru að aðlagast ágætlega, þetta er auðvitað búið að vera dálítið erfitt, en þær eru núna farnar að skilja þýskuna mjög vel og báðar farnar að geta talað dálítið svo nú kemur þetta hratt.

Systurnar Sigrún og Hjördís eru báðar í tvítyngdum ensku/þýsku skólum sem eru mjög alþjóðlegir, í 20 barna bekk hjá þeirri yngri er til dæmis bara eitt barn sem á tvo austurríska foreldra og samtals tala börnin 12 tungumál: „eða eins og eitt foreldri í bekknum sagði við mig „það er ekki hægt að vera öðruvísi í þessum bekk, því það eru allir öðruvísi“ segir Harpa um hið nýja umhverfi dætranna, sem hafa verið afar liðtækar við að koma kaffihúsinu í stand og hönnuðu þær til að mynda barnamatseðil staðarins.

Hægt er að fylgjast með gangi mála á Fésbókarsíðu Home Café og áður en langt um líður fer í loftið heimasíðan home-cafe.at og að sjálfssögðu munu þær taka vel á móti Íslendingum á ferðinni á Home Café, heimili Íslendinga í Austurríki að heiman.

annska@bb.is

DEILA