Nú á árinu 2018 eru liðin 30 ár frá stofnun Skógræktafélags Patreksfjarðar. Boðað var til fundar um stofnun þess 18. september 1988 í Félagsheimili Patreksfjarðar. Bragi Ó Thoroddsen hafði forgöngu um boðunina. Á fundinn mættu 40 einstaklingar.
Aðdragandi að stofnun félagsins – úr fyrstu fundargerð
Fundurinn hófst á því að Bragi bauð fundarfólk velkomið og sérstaklega Brynjólf Jónsson framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Íslands og setti síðan fundinn. Hann hóf mál sitt á að greina frá frá aðdragandanum sem í stuttu máli má rekja til umræðna áhugafólks á Patreksfirði um skógrækt og æskilega endurvakningu skógræktarstarfs. Áður hefði verið starfandi Skógræktarfélag Vestur- Barðastrandarsýslu sem var stofnað árið 1944. Það félag var með þróttmikið starf í sýslunni fram undir sjötta tug liðinnar aldar. Síðan fór að draga úr starfseminni þrátt fyrir viðleitni til að halda henni gangandi. Nú væri svo komið að það félag hefði liðið undir lok án formlegra slita.
Þá tók Brynjólfur til máls. Skýrði hann frá starfsemi Skógræktarfélags Íslands og tengslum þess við staðbundin skógræktarfélaög. Rakti hann breytingar á formi skógræktarfélaganna úr stórum einingum í smærri einingar bundnum sveitarfélögum eða ákveðnum landsvæðum. Taldi Brynjólfur æskilegt markmið að hefja ræktun í bæjarlandinu og vinna að upplýsingarmálum í samvinnu við Skógræktarfélag Íslands.
Nokkrir aðrir fundarmenn tóku síðan til máls. Stefán Skarphéðinsson þakkaði fyrir boðun fundarins og með þessari mætingu væri ljóst, að glæðurnar væru til staðar og í þær þyrfti að blása. Hvatti hann til stofnunar félagsins hið fyrsta. Sigurgeir Aðalsteinsson spurðist fyrir um fjáröflun til skógræktarfélaga. Upplýst var að fjáröflun væri sífellt vandamál fyrir smærri skógræktarfélög. Jónas Þór hvatti til stofnunar félagsins hið fyrsta, ekki væri eftir einu né neinu að bíða. Magnús Ólafsson frá Vestur-Botni tók til máls og skýrði frá fundi um skógræktarmál þar sem rætt var um styrkveitingar til byrjunarframkvæmda. Þá var rætt um ýmis mál varðandi trjá- og skógrækt. Vikið var að söfnun birkifræja sem skólabörn hefðu tekið þátt í sem dæmi um samvinnu skóla og skógræktarfélaga. Brynjólfur benti á gróskumikla birkiskóga í Geirþjófsfirði og Trostansfirði og taldi þá vel fallna til söfnunar birkifræja.
Að loknum almennum umræðum var borin upp tillaga að stofna Skógræktarfélag Patreksfjarðar. Var hún samþykkt einróma og í framhaldinu skráðir 36 stofnfélagar. Síðan var kosin undirbúningsnefnd til að gera drög að samþykktum félagsins og leggja fram tillögur að öðrum þáttum sem tengdust væntanlegri starfsemi og boða síðan til framhaldsaðalfundar. Í nefndina voru kosnir: Bragi Ó Thoroddsen, Sigurgeir Aðalsteinsson og Jónas Þór.
Framhaldsaðalfundur og kosið í stjórn og nefndir.
Sunnudaginn 30. október 1988 var framhaldsaðalfundur félagsins settur. Þar var farið yfir drög að samþykktum félagsins og aðrar tillögur frá undirbúningsefndinni, þær ræddar og síðan bornar voru upp til samþykktar. Að því loknu var kosið í stjórn félagsins samkvæmt samþykkum þess. Þessir félagar kosnir í stjórn og varastjórn og skoðunarmenn ársreikninga.
Aðalstjórn: Bragi Ó Thoroddsen, Sigurgeir Aðalsteinsson og Jónas Þór.
Varastjórn: Ingveldur Magnúsdóttir, Atli Snæbjörnsson og Páley Jóhanna Kristjánsdóttir.
Skoðunarmenn ársreikninga: Ágúst H. Pétursson og Stefán Skarphéðinsson.
Núverandi stjórn og fjöldi félaga.
Nú árið 2018 teljast 30 einstaklingar í félaginu og stjórnin er þannig skipuð:
Aðalstjórn:
Eiður B Thoroddsen formaður, Úlfar B Thoroddsen ritari og Hjörtur Sigurðsson gjaldkeri.
Varastjórn:
Helga Gísladóttir, Páley Jóhanna Kristjánsdóttir og Þór Árnason.
Skoðunarmenn ársreikninga:
Egill Össurarson og Þröstur Reynisson.
Starfsemin á 30 árum.
Starfsemi félagsins hefur verið samfelld frá upphafi fram til þessa en mismikil hvert ár. Gróðursettar hafa verið um 110000 trjáplöntur í umráðaland félagsins á þessum 30 árum eða um 3700 plöntur hvert ár að meðaltali. Árið 2001 stóð félagið fyrir gróðursetningu á 36000 trjáplöntum í löndum Skriðnafells og Holts á Barðaströnd til myndunar á svonefndum Aldamótaskógi. Gróðursettar hafa verið um 1000 bergfurur í efstu gangana í fjallinu ofan þorpsins frá Stekkagili inn í Litladal og í fjallinu austan við Litladal frá Höggi inn eða austur að Smjörteigum utan við Dagmálagil í Mikladal. Þá hafa verið gróðursettar bergfurur neðst í klettabeltið á Raknadalshlíð frá Þúfneyri inn eða austur á Altarisberg. Flestar bergfururnar hafa lifað og vaxið og afföllin furðu lítil. Unnið hefur verið að grisjun og snyrtingu gróðurreita. Þröstur Reynisson hefur séð um þann þátt ásamt erlendum sjálfboðaliðum undir stjórn starfsmanna Skógræktarfélags Íslands. Ýmsir einstaklingar á Patreksfirði hafa leitað til félagsins eftir trjáplöntum til gróðursetningar í svæði sem eru utan umráða félagsins. Áformað er að gróðursetja 10000 plöntur á næsta ári (2019) og halda áfram grisjun og snyrtingu gróðurreita. Jafnframt er áformað að byrja að grisja og snyrta skógarsvæði í Patreksfirði sem vaxið hafa upp af starfi Skógræktarfélags Vestur- Barðastrandarsýslu.
Skógarþrestir stuðla að útbreiðslu trjágróðurs á Patreksfirði
Reyniviður er víða að verða vel sýnilegur í fjallinu ofan við þorpið. Það er mest fyrir atbeina fugla og sérstaklega skógarþrasta. Það sama á við um rifsberjaplöntur en í minna mæli. Þrestirnir háma í sig reyniber og rifsber á hausti. Fræin í berjunum fara ómelt í gegn og skilast út í driti og dreifast þanng um fjallið. Birkið teygir sig upp úr grjóturðinni hér og þar. Fræin berast líklegast í fjallið í uppstreymi á sólríkum dögum eða með vindum úr görðum neðan úr þorpi. Þessar trjáplöntur má nú finna um allt fjallið frá neðstu rótum upp að brún. Blágresið er að breiða úr sér þar sem aðstæður leyfa og annar blómgróður sem sást varla áður í fjallinu. Fjallshlíðin, sem snýr móti suðri og sól og dregur í sig sólarvarmann ,er samfellt steinbeð þótt það sjáist tæpast neðan úr þorpi. Umbreytingin stafar einkum af því að þorpsbúar hafa stóraukið trjárækt í görðum sínum á undanförnum áratugum og sauðfé gengur ekki lengur til beitar í fjallinu eltandi uppi hverja blómplöntu sem hefur náð að teygja sig upp úr grjótinu.
Grýtt gróðurland.
Umráðaland félagsins í nágrenni við þorið í Patreksfirði er örðugt til gróðursetningar. Jarðvegurinn er grunnur, malarborinn og stutt í grófa möl eða grjót. Þar af leiðandi eru afköstin ekki mikil við gróðursetningu. Miðað er við að einn gróðursetjari komi um 50 -60 plöntum niður á einum klukkutíma. Gróðursetning við þær aðstæður er vandaverk og
tæpast á færi annarra en þeirra sem gott vald hafa á viðfangsefninu. Alúðar- og þolinmæðisvinna.
Framtíðin.
Það er erfitt að spá um lífshorfur Skógræktarfélags Patreksfjarðar á þessum tímamótum. Þær velta á vilja og getu þeirra einstaklinga sem nú eru þáttakendur og þeirri nauðsynlegu nýliðun ungs fólks sem er fúst að halda starfseminni gangandi og hefur áhuga á að auka gæði umhverfisins með trjárækt. Vonandi lifir félagið nokkur önnur þrjátíu ár og verður jafn athafnasamt í framtíðinni og hingað til.
Tekið saman 5. desember 2018 á Degi sjálfboðaliðans.
Úlfar B Thoroddsen ritari stjórnar Skógræktarfélags Patreksfjarðar.