Síðastliðna helgi haldinn jólamarkaður í Króksfjarðarnesi þar sem heimamenn og nágrannar gæddu sér á góðri dagskrá og glöddust saman í aðdraganda jóla. Þessi skemmtilega frásögn hér á eftir er fengin að láni frá Reykhólavefnum:
„Eins og fram kom í auglýsingu voru viðburðir á jólamarkaðnum. Jón Jónsson á Kirkjubóli kynnti nýja bók sína, Á mörkum mennskunnar og las upp úr henni kafla. Bókin fjallar um förufólk, viðhorf til þess, fólk sem var jaðarsett af samfélaginu af ýmsum ástæðum og frásagnir af nafnkunnu förufólki. Höfundur lauk erindi sínu með þeim orðum að ef ætti að draga af bókinni eða efni hennar einhvern lærdóm, væri það helst að við ættum að vera almennileg hvert við annað.
Það er orðinn fastur liður að Nikkólína spili fyrir gesti í Nesheimum. Það er skemmtilegt að hljómsveitin er nánast aldrei eins skipuð, en það kemur ekki niður á spilamennskunni, þau eru vön margskonar uppstillingum. Þarna eru ekki neinir nýgræðingar, Nikkólína er komin hátt á fertugsaldur og félagarnir eru á ýmsum aldri, ætli sé ekki um 70 ára aldursmunur á þeim elstu og yngstu. Aldursforsetarnir að þessu sinni voru Halldór Þ. Þórðarson sem er áttræður og Ríkarður Jóhannsson sem er 92 ára. Raunar er sjaldgæft að þá vanti í hópinn. Þarna er enn ein sönnun þess að tónlist brúar kynslóðabil, eða öllu heldur þurrkar það út.
Síðari daginn sem markaðurinn var opinn kom Íris Björg Guðbjartsdóttir á Klúku og söng frumsamin lög, en hún er góður lagasmiður og hefur gefið út geisladiska með eigin lögum við texta eftir Björn Stefán Guðmundsson, Þorgrím á Erpsstöðum bróður hennar og hana sjálfa.
Síðan höguðu atvikin því þannig að gestir í Nesheimum fengu óvæntan konsert þar sem spiluðu og sungu þeir Skúli mennski og Kyle Woolard. Þeir voru á leið til Reykjavíkur vestan af fjörðum þar sem þeir héldu tónleika á nokkrum stöðum. Bíllinn sem þeir voru á bilaði þegar þeir beygðu í suðurátt af Þröskuldaveginum á Oddamelnum. Þeir urðu að skilja hann eftir og kemur hann ekki meir við þessa sögu, en þeir félagar fóru á jólamarkaðinn og leituðu að fari áfram. Meðan þeir biðu eftir farinu tróðu þeir upp við mikinn fögnuð viðstaddara.
Um þá stendur þetta á facebook síðu Skúla mennska: „Kyle Woolard er prímusmótor hljómsveitarinnar The Anatomy of Frank sem hefur sótt vort farsældar frón heim oftar en elstu menn muna. Hann hefur af sér afar gott orð sem lifandi og góður flytjandi. Kyle er nýkominn úr tveggja vikna tónleikaferð um Þýskaland og Sviss og er nú í stuttu stoppi á Íslandi. Skúli er alveg frábær.“
Myndirnar eru fengnar af Reykhólavefnum og veðrið lék greinilega við markaðsgesti.