Aldrei fór ég suður – rokkhátíð alþýðunnar er handan við hornið, en að vanda verður hún haldin um páskana á Ísafirði. Líkt og í fyrra verður hátíðin haldin í skemmu rækjuverksmiðjunnar Kampa við Ásgeirsgötu. „Það var hreinlega dýrðlegt að vera í Kampaskemmunni í fyrra. Húsnæðið sem Kampi lætur okkur í té hentar vel að öllu leyti. Mjög vel staðsett á eyrinni, hæfilega rúmgott og sándar rosalega vel. Við höfum verið að skoða nýjar útfærslur á húsinu því lengi getur gott batnað og það verður spennandi að sjá hvað kemur úr því,” segir Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri Aldrei fór ég suður í tilkynningu frá hátíðinni.
„Við erum ákaflega glöð að fá færi til að endurtaka leikinn í ár. Þessi velvild Kampamanna, Jóni Guðbjartssyni og öllu hans fólki er ákaflega gleðileg og um leið undirstrikar hún að AFÉS er ekki bara rokktónleikar og djamm, heldur líka metnaðarfullt samfélagsverkefni sem virkjar Ísfirðinga og nærsveitunga til ítrekaðra stórvirkja af ýmsu tagi,” segir Kristján.
Stóra spurningin hvert ár þegar líður fram á þennan tíma er: hverjir spila svo í ár? Kristján vill lítið láta upp að svo stöddu. „Eins og er get ég bara staðfest að hátíðin mun svo sannarlega eiga sér stað í ár og gott betur, í skemmu Kampafólks á Ísafirði, alveg lengst niður á höfn. Jú og að prógrammið sem við höfum verið að smíða er alveg til fyrirmyndar og það styttist í að við getum hent prógramminu í loftið,” segir Kristján og bætir við að dagskráin sé fullbókuð í ár og komust færri að en vildu.