Ljósleiðaraverkefni á Barðaströnd kostar 57 milljónir króna

Frá Birkimel á Barðaströnd.

Davíð Rúnar Gunnarsson, Patreksfirði hefur umsjón með ljósleiðaravæðingu á Barðaströnd.  Hann segir í svari við fyrirspurn bb.is að verkefnið kosti um 57 milljónir króna. Áætlað er að Fjarðskiptasjóður styrki verkefnið um 20 milljónir króna og að Vesturbyggð leggi til allt að 5 milljónir króna.  Þá mun hvert heimili þar sem er föst búseta eða fyrirtæki greiða 250 þús. í heimtaugagjald og sumarbústaðir munu greiða 350 þús. í heimtaugagjald.

Davíð Rúnar segir að verið sé ljósleiðaravæða dreifbýli á Íslandi almennt og hafa skuli í huga áður en samanburður verður gerður á verkefnunum að tölur fyrir hvert svæði eru mjög mismunandi. Það fer mikið eftir því hversu langt er lagt og hversu margir notendur eru á hverjum legg.

Ljóst er að þau verkefni sem eftir eru á landinu verði mun dýrari og óhagkvæmari en þau sem nú eru í vinnslu. Nú er verið að taka þau verkefni þar sem fáir tengistaðir eru en langt að leggja til þeirra, segir Davíð Rúnar að lokum.

 

DEILA