Skylt að skrá ketti og senda mynd af þeim

Á næstu dögum munu öll heimili í Vest­ur­byggð fá dreifi­bréf varð­andi Samþykkt um katta­hald og gælu­dýra­hald annað en hunda­hald. Eigendur katta eru hvattir til að skrá þau sem fyrst og kynna sér innihald reglugerðarinnar.

Allir kettir í þéttbýli í Vesturbyggð eru skráningarskyldir og skylt er að sækja um skráningu kattar í þéttbýli innan tveggja vikna frá því að hann er tekinn inn á heimili. Kattahald í dreifbýli sætir að öllu jöfnu ekki takmörkunum. Kettirnir eiga að vera merktir þegar þeir eru skráðir og óheimilt er að skrá fleiri en tvo ketti á sama heimili. Við skráningu kattar getur sveitarfélagið leitað umsagnar lögreglu og annarra heilbrigðiseftirlitssvæða telji það ástæðu til.

Þegar köttur er skráður þarf að leggja fram umsókn, upplýsingar um heiti, fæðingardag, kyn, tegund og önnur einkenni kattarins, sem og mynd af kettinum. Einnig þurfa að fylgja vottorð frá dýralækni um einstaklingsmerkingu og ormahreinsum. Þá þarf að fylgja staðfesting frá viðurkenndu tryggingafyrirtæki um að umsækjandi hafi gilda ábyrgðartryggingu sem nær til alls þess tjóns sem kötturinn kann að valda mönnum, dýrum, gróðri og munum sé sveitarfélagið ekki með hóptryggingu innifalda í skráningargjaldi.

Skilyrði fyrir skráningu kattar er að gögn hafi verið lögð fram af hálfu umsækjanda og skráningargjald greitt samkvæmt gjaldskrá sem sveitarfélagið hefur sett.
Í kjölfar skráningar ber sveitarfélaginu að afhenda forráðamanni kattar leyfisskírteini sem staðfestingu á að köttur hans hafi verið skráður til heimilis í sveitarfélaginu.

Skyldur eftirlitsaðila

Dýraeftirlitsmaður sveitarfélagsins skal halda og uppfæra skrá yfir ketti í sveitarfélaginu. Í skránni skulu koma fram allar upplýsingar er varða skráða ketti og sem dýraeftirlitsmaður telur skipta máli.
Heilbrigðiseftirlit Vestfjarðasvæðis, lögregla og eftir atvikum starfsmenn sveitarfélagsins skulu tilkynna dýraeftirlitsmanni um kvartanir eða afskipti þeirra af köttum í sveitarfélaginu.

Skyldur eigenda og umráðamanna katta

Skráðum eiganda kattar ber að sjá til þess að umhirða kattarins sé í samræmi við ákvæði um velferð dýra og kötturinn skal fara í ormahreinsun árlega. Kattareigendum er skylt að ábyrgðartryggja sig gegn tjóni sem kettir þeirra kunna að valda mönnum, dýrum, gróðri og munum. Auk einstaklingsmerkingar skulu kettir bera hálsól með upplýsingum um heimilisfang eiganda og símanúmer.

Kattaeigendum ber líka að sjá til þess að högnar séu geltir og að læður séu gerðar ófrjóar eða hafðar á getnaðarvarnapillu. Eigendum og umráðamönnum katta ber, eftir því sem framast er unnt, að sjá svo um að kettir þeirra valdi ekki hávaða, ónæði, óþrifnaði eða óhollustu. Ef köttur veldur nágrönnum eða öðrum ítrekuðu ónæði, óþrifum eða tjóni, þá ber eiganda eða umráðamanni að leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt.

Kattaeigendum og umráðamönnum ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma, eftir því sem tök eru á, m.a. með því að hengja bjöllur á hálsólar katta og halda þeim innandyra á nóttunni.

Föngun katta

Sveitarstjórn er heimilt að láta fanga ketti í búr ef köttur er ómerktur, hvort sem er án hálsólar og/eða örmerkis, ef ítrekað er kvartað undan ágangi katta á tilteknu svæði eða ef köttur finnst innandyra hjá nágranna í leyfisleysi, á öðrum óheimilum stað eða í fjöleignarhúsi þar sem á skortir tilskilið samþykki annarra íbúðareigenda.

Aðgerðir gegn hálfvilltum köttum

Meiriháttar föngun hálfvilltra katta í þéttbýliskjörnum skal auglýsa með a.m.k. viku fyrirvara og með tilmælum um að skráðum köttum sé haldið innan dyra.
Eftir tvo sólarhringa frá handsömun er sveitarfélaginu heimilt að ráðstafa hálfvilltum ketti til nýs eiganda, selja hann gegn áföllnum kostnaði eða aflífa án bóta.

Gæludýr önnur en kettir og hundar

Eigendum og umráðamönnum gæludýra annarra en hunda og katta er skylt að koma í veg fyrir að dýr þeirra sleppi úr haldi. Gerist það skal þegar gera ráðstafanir til að handsama dýrið. Eigendur og umráðamenn gæludýra sem haldin eru utandyra, t.d. kanína eða annarra nagdýra, skulu sjá til þess að dýrin valdi ekki nágrönnum ama svo sem með hávaða eða óhreinindum. Skulu þeir tryggja að dýrin geti ekki nagað sig út úr búri eða aðhaldi.
Kanínur skulu einstaklingsmerktar skv. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra.

Gjaldtaka

Sveitarstjórn er heimilt að innheimta skráningar- og eftirlitsgjöld í samræmi við gjaldskrá sem sveitarfélagið setur um hollustuhætti og mengunarvarnir, og að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar. Sveitarstjórn skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda.
Skráningargjald skal í fyrsta sinn greitt við skráningu kattar og síðan árlega fyrirfram. Skráningargjaldi er ætlað að standa undir kostnaði sveitarfélagsins við kattahald og framkvæmd samþykktar þessarar.

Sæbjörg

sfg@bb.is

 

DEILA