Nýtt kvennaflaggskip siglir suður um helgina

Móðurskipið, B-lið kvenna í Vestra.

Það er stór útileikjahelgi framundan hjá körfuknattleiksdeild Vestra og þær frábæru fréttir voru að berast að nýtt lið frá Vestra mun keppa um helgina en það er nýstofnað B-lið kvenna, systurskip Flaggskipsins. „Þetta er mjög spennandi og svo ótrúlega gaman,“ sagði Helga Salóme Ingimarsdóttir ein úr Systurskipinu, þegar BB náði tali af henni. „Þetta erum við gömlurnar sem spiluðum saman með KFÍ á árum áður og búum hér enn eða erum komnar aftur heim. Helga Salóme segir að hugmyndin um að stofna B-lið kvenna hafi kviknað af því að flestar þeirra eru með börn sem æfa körfu eða hafa verið að þjálfa. „Einhverjir af mönnunum okkar eru að spila með karlaflaggskipinu og við ræddum þetta á einhverjum leik, að fyrst karlarnir gætu þetta, af hverju þá ekki við?“

Þær tóku svo ákvörðun í haust að ríða á vaðið og spila á sínu fyrsta móti núna um helgina sem er fjölliðamót í 2. deild kvenna á Ásvöllum í Hafnarfirði. Þar mæta stelpurnar Haukum, Kormáki, Sindra og Stjörnunni. „Í liðinu erum við systur Helga Salóme og Karítas Ingimarsdætur, Ester Sturludóttir, Dagný Finnbjörns, Stefanía Ásmundsdóttir, Anna Soffía Sigurlaugsdóttir, Birgitta Guðbjartsdóttir, Sigríður Guðjónsdóttir, Ásta María Guðmundsdóttir, Sólveig Erlingsdóttir og Elísabet Samúelsdóttir. Því miður komast ekki allar í þessa ferð sökum anna og því erum við með tvær búsettar í Reykjavík sem ætla að spila með okkur um helgina,“ segir Helga Salóme og það verður spennandi að fylgjast með þessum valkyrjum í framhaldinu.

Aðrir leikir Vestra um helgina eru þeir að meistaraflokkur mætir Þór Akureyri fyrir norðan á morgun kl. 14:00 í 1. deild karla. Þetta verður uppgjörsleikur um topp sæti deildarinnar en bæði lið eru með 5 sigra og 1 tap. Leikurinn verður í beinni útsendingu á netinu. Flaggskipið siglir í Grundarfjörð og mætir heimamönnum í 3. deildinni. Að lokum verður 9. flokkur drengja svo einnig á ferðinni en strákarnir spila í C-riðli í íþróttahúsi Kennarahásskólans og mæta þar Ármanni, Grindavík og Þór Akureyri.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA