Frumflutningur á Kalla og sælgætisgerðinni á sunnudaginn

Það er svo sannarlega framúrskarandi ungt tónlistarfólk sem er hér á Vestfjörðum.

Tónlistarskóli Ísafjarðar og Ópera Vestfjarða hafa ráðist í það stórverkefni að setja upp sýninguna Kalli og sælgætisverksmiðjan. Verkið er söngleikur eða ópera eftir Hjálmar Ragnarsson og Böðvar Guðmundsson og byggir á sögunni Charlie and the Chocolate Factory eftir Roald Dahl. Sýningin er sett upp í tilefni 70 ára afmælis Tónlistarskóla Ísafjarðar og Tónlistarfélags Ísafjarðar og þátttakendur eru nemendur og kennarar tónlistarskólans ásamt góðum gestum. Frumsýning er sunnudaginn 25. Nóvember og það er að vonum mikil spenna í loftinu í Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Í verkinu Kalli og sælgætisgerðin segir frá fjölskyldu Kalla sem lifir í mikilli fátækt, hinum stórkostlega sælgætisgerðarmanni Villa Wonka og fimm gullnum aðgöngumiðum sem fimm heppnum börnum hlotnast og þau fá að líta augum ævintýrlega súkkulaðiverksmiðju hans.

„Þetta er söngleikur eða ópera, samin fyrir tilstilli Tónmenntaskóla Reykjavíkur,“ sagði Hjálmar Ragnarsson við BB. „Verkið var frumflutt í konsertformi í Íslensku óperunni árið 1993 og þetta er því í annað sinn sem verkið er sett upp með þessum hætti. Enn hefur það ekki verið flutt sem fullbúið sviðsverk í leikhúsi. Ég er höfundur verksins ásamt með Böðvari Guðmundssyni, sem samdi líbrettóið, en það byggir á samnefndri sögu Roalds Dahl,“ sagði Hjálmar.

Dagný Arnalds, skólastjóri Tónlistarskólans sagði í samtali við BB að æfingar væru búnar að ganga mjög vel. „Sybille leikstjóri er ótrúleg galdrakona. Hún laðar fram ótrúlegustu hluti hjá þessu unga liði okkar. Krakkarnir hafa staðið sig ótrúlega vel, þau eru á löngum æfingum en eru afskaplega dugleg að mæta dag eftir dag. Við erum ofboðslega stolt af þeim öllum og hvað þau eru dugleg og leggja sig mikið fram,“ segir Dagný og spennan og stoltið leynir sér ekki í röddu hennar. „Þetta er mjög krefjandi en lærdómsríkt fyrir alla og við lærum ofboðslega mikið af því að vinna með Sybille í uppsetningu á svona verki. Hún er mjög skemmtilegur og hæfileikaríkur leikstjóri.“

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA