Stangveiðin – þar sem náttúran víkur

Það stendur yfir mikið áróðursstríð gegn laxeldi í sjó. Einkum er spjótunum beint gegn uppbyggingu laxeldis á Vestfjörðum. Þar fara fremstir í flokki þeir sem eiga mikla hagsmuni í sölu leyfa til stangveiði í laxveiðiám landsins.  Stangveiðin er vinsæl og eftirsótt afþreying, meðal annars eru erlendir auðkýfingar mjög virkir þátttakendur í þessari atvinnugrein og hafa fjárfest í veiðiréttindunum með kaupum á jörðum víða um land. Einn auðugasti maður Englands á margar jarðar að hluta til eða að öllu leyti, meðal annars í Vopnafirði og sænskir aðilar hafa átt jarðir með veiðiréttindum  í Ísafjarðardjúpi svo aðeins tvö dæmi séu nefnd.

Vernd náttúrunnar

En áróðursmenn stangveiðinnar, sem daga og nætur hamast gegn laxeldinu á Vestfjörðum, minnast lítið sem ekkert á fjárhagslegu hagsmunina heldur beita öðrum rökum. Þau eru að laxeldið spilli náttúrunni og að náttúran eigi ætíð að njóta vafans. Þess vegna eigi að stöðva laxeldi strax með öllum ráðum áður en óafturkræf spjöll verða unnin á náttúrunni. Spjöllin eru af ýmsum toga. Erfðamengun eldislaxsins við innlenda stofna útrýmir fornum og verðmætum stofnum eða lús, sjúkdómar, úrgangur og affall frá kvíuum mengi hafið. Vísað er í alþjóðlega samninga um  náttúruvernd  og því er svo bætt við að leyfisveiting muni hafa alvarleg áhrif á „fugla, fiskstofna, náttúruminjar, samfélagsþætti og sérstætt náttúrufar sem mun allt bíða varanlegan skaða“ eins og segir í rökstuðningi fyrir kæru á leyfi til Háafells hf um laxeldi í Ísafjarðardjúpi.

Stangveiðin og náttúran

En hver hefur umgengni stangveiðinnar við náttúrunnar verið ?  Á það hefur verið bent að dæmi séu um það erlendis frá að sé horft til þess sem náttúran sjálft stendur undir. Þá er lagst gegn því að framleiðsla ánna sé aukin með manngerðum aðgerðum. Bent hefur verið á Noreg þar sem þessi sjónarmið séu ríkjandi. Það væri fróðlegt að Hafrannsóknarstofnun léti vinna samantekt um þetta.

Það sem fyrir liggur hér á landi með óyggjandi hætti er að veiðirétthafar hafa um langt árabil beitt margvíslegum aðgerðum sem grípa inn í gangverk náttúrunnar til þess eins að laxveiðin verði meiri og gefi af sér meiri tekjur.  Í þessum tilvikum hefur ekki verið haft á orði að náttúran eigi að njóta vafans.

farvegum breytt

Árfarvegum hefur víða verið breytt, með sprengingum eða laxastigum til þess að opna leiðir fyrir göngulax.  Selá í Vopnafirði, einni af verðmestu ám landsins, hefur a.m.k. tvívegis verið breytt með þessum aðferðum , í síðara skiptið 2010. Þær eru taldar hafa tekist vel segir í frétt landssambands veiðifélaga rá þeim tíma. Annað dæmi er Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi, en þar hafa frá 1936 verið aðgerðir í gangi til þess að koma laxagengd upp í ánni. 1969 er steyptur laxastigi í ánni. Fleiri ár má nefna þar sem aðgerðir af þessum toga hafa verið framkvæmdar. Það nefndi engin að náttúran eigi að njóta vafans.

fiskirækt

Önnur aðgerð sem mikið hefur verið notuð er að rækta upp laxastofn í einstökum ám, jafnvel þótt fyrir væri stofn. Um það má lesa í skýrslu Veiðimálastofnunar frá 1989 um starfsemina frá 1964. Á þessu 25 ára tímabili var safnað hrognum í fjölmörgum ám og þeim síðan dreift um landið, jafnvel blönduðum saman, í marga tugi laxveiðiáa. Samtals virðist um 6 milljónum seiða hafa verið sleppt í árnar á þessum 25 árum. Að auki var nokkuð um norsk innflutt seiði. Það nefndi enginn hugsanlega erfðablöndun og ekki heldur að náttúran ætti að njóta vafans.

burðarþol

Hafrannsóknarstofnun hefur fundið upp á því að reikna svokallað burðarþol hafsvæða fyrir fiskeldi. Svo var bætt um betur með enn nýju mati sem heitir áhættumat, enda var burðarþol fjarðanna fyrir vestan meira en vinir stangveiðinnar innan Hafrannsóknarstofnunar telja hæfilegt. Áhættumatið er til þess að stoppa laxeldið, þótt það sé innan burðarþolsins.  Svo einstrengisleg er stofnunin í því að hún fæst ekki til þess að endurreikna burðarþolið og áhættumatið miðað við breyttar forsendur. En sérfræðingarnir sem komu frá Veiðimálastofnuninni inn í Hafrannsóknarstofnun hafa ekki orðað það að reikna náttúrurlegt burðarþol einstakra vatnasvæða og hafa ekkert um það að segja að burðarþolið í ánum sé blásið upp með ræktun og ummyndun farvega. Rangárnar eru talandi dæmi um manngerða laxveiðiá. Náttúran þarf greinilega ekkert að njóta vafans.

 

Það er ekki minnst á umhverfismat þegar laxarækt í veiðiám á í hlut. Hvað þá að einhver valkostagreining fari fram. Það hefur alveg farið fram hjá Skipulagsstofnun að árnar séu hluti af landinu.

Niðurstaðan af orðum og gerðum veiðiréttarhafa er hverjum manni augljós. Náttúran víkur fyrir fjárhagslegum hagsmunum stangveiðinnar. Það er kjarni málsins þegar flett er ofan af rökum andstæðinga laxeldis í sjó um náttúruverndina.

Í andmælum stangveiðimanna undir forystu Óttars Yngvasonar gegn því að veita bráðabirgðaleyfi á dögunum í Tálknafirði og Patreksfirði segir um sjókvíaeldið að það eyðileggi óspillta náttúru landsins. Þeir eru svo blindir að þrátt fyrir að hafa um áratugi ummyndað náttúruna finnst þeim að hún sé enn óspillt.

Í þessu á auðvitað að leggja sömu mælikvarða á  málin. Ef það verður gert er kannski líklegast niðurstaðan sú að í báðum tilvikum hafi orðið og verði mikilvægur efnahagslegur ávinningur án teljandi skaða á náttúru landsins. Áframhaldandi uppbyggingu fiskeldis er einfaldlega almannahagur, sem afar ólíklegt er að spilli stangveiðinni.

Kristinn H. Gunnarsson

DEILA