Umhverfisfræði – fræði málamiðlananna

Guðrún Anna Finnbogadóttir.

Mér finnst best að borða nautasteik með Bernaissósu jafnvel þó umhverfissinninn ég viti að áhrifin á umhverfið séu mikil. Í þessari stöðu hef ég nokkra valkosti, ég get fækkað þeim skiptum sem ég borða nautakjöt, aðeins keypt það beint af býli í nágrenninu, valið umhverfisvænni mat eins og t.d. fisk eða farið alla leið og gerst grænmetisæta og ræktað mitt eigið grænmeti í gróðurhúsi í garðinum og haft hamingjusamar hænur á vappi.

Til að rækta grænmetið í gróðurhúsinu þarf ég lýsingu til að plönturnar vaxi. Þá erum við farin að tala um aukna rafmagnsnotkun svo ég geti stundað mitt sjálfbæra líf. Þegar þangað er komið er eðlilegt að ég velji umhverfisvæna orku eins vatnsfallsorku eða vindmyllur í nágrenninu en í mínu tilfelli hér á Vestfjörðum er ljóst að líklegast er eina orkan sem verður í boði, varafl keyrt á díselolíu ef allir myndu lifa sjálfbæra drauminn. Því vistvæn orka er á þrotum í fjórðungnum miðað við „eðlilega“ orkuneyslu íbúanna.

Í mínu sjálfbæra lífi er bíll því ég hef valið að neyta mér ekki um að komast á milli staða hinsvegar get ég sannanlega bætt mig. Þær lausnir sem helst eru nefndar eru almenningssamgöngur sem finnast varla í mælanlegu magni á mínu svæði eða fá mér rafmagnsbíl en allir umhverfissinnar vita hvað gerist þegar við setjumst upp í flugvél. Allt okkar góða líferni með flokkun og að hjóla í vinnuna rokið út í veður og vind strax á flugbrautinni. Hef undanfarið lítið heyrt af umhverfissinnum sem neyta sér um flug til útlanda til að minnka útblásturinn en í fullri alvöru ættum við öll að hugsa um að draga úr flugferðum.

Ef ég fengi mér lítinn snaggaralegan rafmagnsbíl, búandi á Patreksfirði, kæmist ég líklegast ekki til Reykjavíkur. Í fyrsta lagi þurfa allir sem vilja keyra þessa leið yfir vetrartímann orkufrekari fjórhjóladrifna bíla, ef ég kæmist í Reykhólasveitina gæti ég keypt mér pylsur á meðan ég biði eftir rafmagnshleðslunni, en nú er pyslusjoppa í Reykhólabæ talin einn stærsti vaxtarsproti atvinnulífsins þar. Mér er að verða ljóst að líklegast verð ég að láta mér nægja að keyra inn í höfuðborgina með brotna umhverfissjálfsmynd á fjórhjóladrifna jeppanum mínum um næstu ókomnu framtíð baðaðann í aur og drullu. Svona umhverfissóði eins og ég getur hvergi leynst í 101 Reykjavík.

Við höfum alltaf val og þurfum að finna jafnvægi og ég gæti valið þá leið að ferðast sjaldnar til að minnka umhverfissporið. Samfélagið styrkir hinsvegar á engan hátt viðleitni mína til sjálfbærni og færri ferðalaga.
Hver stofnunin á fætur annari minnkar þjónustuna á landsbyggðinni og þar er lítið verið að skoða sjálfbær samfélög þar sem öll dagleg þjónusta er í boði. Kílómetrunum sem fólk þarf að keyra í banka eða á pósthús fjölgar stöðugt.

Annað gott dæmi er hvernig læknaregluverkið hefur breyst þannig að læknar þyrpast á höfuðborgarsvæðið þar sem þeir geta drýgt tekjur sínar með viðtalstímum á einkastofum tvo daga í viku en hina dagana nýtt dýr tæki og tól spítalanna sem ríkisstarfsmenn. Ef kjörin verða of rýr taka þeir viku skrepp út á landsbyggðina sem verktakar á heilbrigðisstofnunum landsins með tilheyrandi launagreiðslum. Læknir vikunnar er þekkt stærð í þorpunum og kemur reglulega fyrir í spjalli fólks enda alltaf að koma nýjir læknar.
Eftir stöndum við íbúarnir í þorpunum í þeim sporum að þurfa nokkrum sinnum á ári að „skjótast“ til Reykjavíkur eftir heilbrigðisþjónustu með tilheyrandi umhverfisáhrifum svo ekki sé talað um frátafir frá vinnu.

Við veljum okkur lífsstíl en eins og ljóst má vera á þessum dæmum verður minn lífsstíll ekki sérlega grænn nema að umhverfisvænar áherslur í innviðauppbyggingu verði settar í samfélaginu öllu fyrir alla.

Ég vil hafa aðgang að umhverfisvænni orku, keyra um í umhverfisvænni bíl, rækta mitt grænmeti, kaupa mat úr heimabyggð og skjótast til læknis í stað langra ferðalaga. Það er ekki nóg að velja sér gæluverkefni í umhverfismálum og gerast heilagri en páfinn, við þurfum öll að vinna að þessum málum og það þarf kjark til að taka ákvarðanir með sterka sjálfbæra framtíð að leiðarljósi.

Ég hvet alla til að hugsa um umhverfisáhrifin sem þeir valda, gera málamiðlanir til að bæta árangur sinn og þeim sem stjórna að koma með alvöru sjálfbærar lausnir fyrir alla landsmenn.

Guðrún Anna Finnbogadóttir
M.Sc í umhverfisstjórnun

DEILA