Moses Hightower spilar í Edinborg í næstu viku

Gæðablóðin taktvissu í Moses Hightower verða loks með tónleika í Edinborgarhúsinu 29. nóvember næstkomandi. Hljómsveitin hefur í um áratug verið einn helsti kyndilberi sálarskotinnar dægurtónlistar á klakanum, eða allt síðan dúnmjúki valsinn „Búum til börn“ tók að heyrast á öldum ljósvakans árið 2008. Fljótlega eftir það, leit dagsins ljós samnefnd plata, og voru gagnrýnendur og hlustendur sammála um að hér kvæði við nýjan tón í íslenskri tónlist. Útsetningar, hljóðheimur og spilamennska sóttu óspart í sálartónlist 7. og 8. áratugar, en textar þóttu minna á íslenskt lopapeysupopp frá sama tímabili, ekki síst Spilverk þjóðanna. Í öllu falli var plötunni tekið fagnandi, og lögin „Vandratað“ og „Bílalest út úr bænum“ hljómuðu látlaust úr viðtækjum landsins.

Önnur Mósebók fylgdi í kjölfarið, og sá angurværi og indískotnari tónn sem þar kvað við virtist falla í kramið hjá skammdegisþjóðinni. Platan hlaut fjölda verðlauna og mikla útvarpsspilun, og fór að endingu í gullsölu. Þriðja breiðskífa sveitarinnar, Fjallaloft, kom út um mitt síðasta ár, og lög af henni verða fyrirferðarmikil á Hattinum í bland við lummur á borð við „Stutt skref“, „Háa C“ og „Sjáum hvað setur“. Nýjasta lag sveitarinnar, Ellismellur, verður með í för, og hver veit nema hún prufukeyri eitt eða tvö lög af næstu plötu sveitarinnar, en vinna við hana er í fullum gangi.

Fyrir ykkur sem komist ekki í Edinborgarhúsið þá má geta þess að hljómsveitin mun á ferðalagi sínu um landið spila í Frystiklefanum á Rifi 28. nóvember og á Græna Hattinum á Akureyri 30. nóvember

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA