Stúlkurnar í Vestra stóðu sig vel fyrir sunnan

Stúlknaflokkur og 10. flokkur ásamt Yngva þjálfara, Örnu Láru og Inga Birni fararstjórum og Degi lukkudýri. Mynd: Vestri.

Það var þreyttur en stoltur þjálfari sem BB talaði við á sunnudagskvöld. Það var Yngvi Gunnlaugsson, sem hafði keyrt suður strax eftir leik Vestra við Hamar á föstudag, til að fylgja stúlknaflokki og 10. flokk stúlkna í Vestra í keppnisferð suður yfir heiðar.

Stelpurnar stóðu sig mjög vel sagði Yngvi og í raun frábærlega þar sem þær eru að hluta að spila við eldri stúlkur sem keppa með landsliðinu. Það er vel hægt að ímynda sér að ferðin hafi verið nokkuð strembin þar sem þær þurftu bæði að ferðast langt og svo leika fimm leiki á tveimur dögum. Nánast allur æfingahópurinn var samankominn fyrir sunnan, 18 stelpur og svo fararstjórar og þjálfari. Vestri hefur sagt ferðasöguna sem kemur hér á eftir og það er greinilegt að þarna er kominn hópur sem verðugt er að fylgjast með.

Laugardagur í Grindavík

Helgin byrjaði í Grindavík á laugardegi en bæði stúlknaflokkur og 10. flokkur léku við heimaliðið. Grindvíkurstúlkur eru firnasterkar í þessum aldursflokkum og hafa þær landað ófáum íslands- og bikarmeistaratitlunum undanfarin ár. Það var því við ramman reip að draga en einnig verður að viðurkennast að Vestrastúlkur voru langt frá sínu besta og mættu hreinlga ekki tilbúnar í verkefnið. Niðurstaðan var því tvö óþarflega stór töp sem fara í reynslubankann og leikmenn munu án efa læra af.

Sunnudagur í Kraganum

Á sunnudeginum klukkan 13:00 mætti 10. flokkur Stjörnunni í hörkuviðureign. Vestrastúlkur mættu ákveðnar til leiks og ætluðu greinilega ekki að láta ófarir gærdagsins slá sig út af laginu. Stjarnan náði þó að vinna sig inn í leikinn og litlu munaði að þær næðu að stela sigrinum en skynsamlegur leikur Vestra í blálokinn tryggði eins stigs sigur 39-38.

Eftir sigurinn dreif allur hópurinn sig svo á Ásvelli í Hafnarfirði þar sem stúlknaflokkur mætti Haukum kl. 15:00. Skemmst er frá því að segja að stúlknaflokkur átti fínan leik og sýndu þær oft og tíðum að þær geta átt í fullu tré við sterk lið eins og Hauka sem hafa á að skipa eldri leikmönnum. Leikur liðsins var mun betri en í Grindavík þótt niðurstaðan hafi verið tap.

Skammt var á milli leikja því næsti leikur 10. flokks var í Smáranum gegn Breiðabliki kl. 16:00. Því var ljóst að Yngvi Gunnlaugsson þjálfari næði ekki að vera í Smáranum í upphafi leiks hjá 10. flokki. Brá hann þá á það ráð að fá annan af fararstjórum hópsins í það verkefni að leika þjálfara í Smáranum. Þessi ráðning lukkaðist vel, þótt ótrúlegt megi virðast, en fyrst og síðast vegna þess að stelpurnar stóðu sig frábærlega í leiknum. Þær mættu af krafti og sköpðu sér strax þægilega forystu sem liðið bætti jafnt og þétt við. Lokatölur 31-68 fyrir Vestra.

Skin og skúrir það sem af er tímabilinu

Stúlknahópurinn okkar samanstendur af stelpum sem fæddar eru 2002-2004 en hluti af hópnum, fjórar stelpur fæddar 2004, spila upp fyrir sig í aldri bæði með 10. flokki og stúlknaflokki.

Það sem af er hausti hefur gengið á með skini og skúrum hjá hópnum. Verkefni stúlknaflokks er nokkuð erfitt enda etja þær kappi við stelpur sem eru fæddar frá 2000-2002 en allar okkar stelpur eru á yngsta ári í þessum flokki. Þær fá svo liðstyrk frá yngri æfingafélögum sínum og hafa 2004 stelpurnar iðulega fyllt það skarð og staðið sig eins og hetjur. Fyrirfram var vitað að þetta verkefni þessa hóps yrði erfitt og markmiðið því fyrst og fremst að bæta leik liðsins og taka framförum, enda oft við ramman reip að draga gegn liðum sem jafnvel hafa á að skipa A-landsliðskonum. Þótt allir leikir liðsins það sem af er tímabilinu hafi tapast hafa þeir verið góður skóli og ljóst að það styttist í fyrsta sigurinn.

Tíundi flokkur hefur átt betra gengi að fagna en í 12 liða deild eru Vestrastúlkur með efstu liðum deildarinnar með aðeins eitt tap. Sú nýbreytni var tekin upp á þessu keppnistímabili að leika í deildarkeppni og spila heima og heiman í stað fjölliðamóts kerfis hjá þessum flokki. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel þótt ferðum suður hafi fjölgað og þótt stundum sé reynt að sameina fleiri en einn leik í hverri ferð eins og um liðna helgi.

Framtíðin er í öllu falli björt hjá þessum stóra og glæsilega hópi stúlkna og eru allir sem tengjast hópnum spenntir fyrir komandi vetri.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA