Atvinnuveganefnd Alþingis afgreiddi frumvarp um veiðigjald til annarrar umræðu í gær. Nefndin gerir tillögur um tilteknar breytingar á frumvarpinu. Þannig er lagt til að frítekjumark nemi 40% af fyrstu 6 m.kr. álagningar hvers árs hjá hverjum gjaldskyldum aðila. Með þessu leitast nefndin við að koma sérstaklega til móts við litlar og meðalstórar útgerðir vítt og breitt um landið. Umrædd breyting er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um að efla hinar dreifðu sjávarbyggðir segir í tilkynningu frá meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis.
Þá leggur nefndin til þá breytingu að nytjastofnar sem hafa minna aflaverðmæti en 100 milljónir kr. samkvæmt vegnu meðaltali næstliðinna þriggja ára mynda ekki stofn til veiðigjalds. Vísar nefndin til þess að umræddir nytjastofnar veiðast oftast sem meðafli og í litlum mæli. Af þeim sökum er erfitt að meta sérstaklega raunverulega afkomu af veiðum þeirra. Jafnframt vísar nefndin til þess að gjaldtaka á þessar tegundir getur dregið að nauðsynjalausu úr sókn í þær og aukið hættu á brottkasti.
Þá segir í fréttatilkynningunni að „með frumvarpinu er álagning veiðigjalds færð nær í tíma þannig að gjaldtakan sé meira í takt við afkomu greinarinnar. Þá verður innbyggður hvati til endurnýjunar fiskiskipa og búnaðar í útreikning veiðigjalds. Það mun stuðla að því að umhverfisspor af auðlindanotkun minnkar, sem er mikilvægt mál. Loks kveður frumvarpið á breytingar sem gera stjórnsýslu með álagningu og innheimtu veiðigjalds einfaldari, skilvirkari og áreiðanlegri.“
Ekki kemur fram í nefndarálitinu hvaða áhrif breytingartillögurnar hafa á tekjur ríkissjóðs af veiðgjaldinu. En samkvæmt breytingartillögunum hækkar frítekjumark úr 1,1 milljónum króna álagt veiðigjald upp í 2,4 milljónir króna. Það þýðir að aukin lækkun veiðigjalds getur orðið allt að 1,3 milljón króna hjá hverjum gjaldskyldum aðila af fyrstu 6 milljón króna álagningu. Afslátturinn er þannig hækkaður um allt að 118% hjá þeim sem fá álagningu 6 milljónir króna í veiðigjald. Áfram er gert ráð fyrir 15% afslætti af veiðigjaldi frá 6 milljónum króna upp í 9 milljónir króna.
Gagnrýnt var í umsögn frá Þörungaverksmiðjunni að innheimt væri veiðigjald af þangöflun fyrir Þörungaverksmiðjuna á Reykhólum og bent á að þangöflunin væri innan netlaga, félli þar með undir hluta af eignarjörðum og gæti því ekki verið greiðsla fyrir afnot af sameiginlegri auðlind.
Meirihluti atvinnuveganefndar víkur að þessu í nefndaráliti sínu. Þar segir að einungis hluti nýtingarnnar sé innan netlaga og lögfest hafi verið 2017 að stofnanir ríkisins hefur ríkari skyldur til þess að vakta og rannsaka þara og þang. Þar sem rannsóknirnar eru mikilvægar fellst meirihluti nefndarinnar ekki á það sjónarmið að aflétta veiðigjaldinu af þang- og þaraöflun.