Ekki er hægt að slá föstu hversu mikill regnbogasilungur slapp út úr eldiskví Arctic Sea Farm í Dýrafirði. Sigurður Pétursson framkvæmdastjóri fyrirtækins segir að gert var ráð fyrir tæpum 200 tonnum af fiski kvínni og búið sé að slátra um 130 tonnum upp úr henni. „Það er of snemmt að fullyrða hvað fór mikið út en það sést að það er þónokkuð minna í kvínni en við gerðum ráð fyrir,“ segir Sigurður.
Fyrirtækið Arctic Sea Farm í Dýrafirði tilkynnti sleppinguna til Fiskistofu og Matvælastofnunar sem meta nú viðbrögð og aðgerðir og eftirlitsmaður Mast kemur vestur á morgun.
Í haust gaf Fiskistofa út tilkynningu um að regnbogasilungur veiddist víða í ám á Vestfjörðum. Sigurður segir of snemmt að fullyrða hvort að sá fiskur hafi komið úr sjókví Arctic Sea Farm í Dýrafirði. „En það er eðlilegt að menn velti því fyrir sér.“
Gat á kvínni kom í ljós í gær þegar unnið var við slátrun. Sigurður segir að fyrirtækið hafi sett í gang sína viðbragðsáætlun, meðal annars með netaveiðum í nánasta umhverfi en enginn fiskur kom í netin.
Hann segir þetta mikið högg fyrir fyrirtækið og starfsgreinina í heild. „Það eina sem við getum sagt er að við ætlum að læra af þessu. Við, eins og önnur fiskeldisfyrirtæki, erum að tækja okkur betur. Það er að koma inn í greinina fjármagn með mikla þekkingu á fiskeldi og menn eru að uppfæra sinn búnað,“ segir Sigurður.
smari@bb.is