Kolaport og basar Kvenfélagsins Hvatar um helgina

Hvöt tekur við hlutum og fötum þriðjudag-fimmtudags á milli kl 16-21.

Mörgum finnst það ómissandi í aðdraganda aðventu að renna í Hnífsdal og fara á basar hjá Kvenfélaginu Hvöt. Basarinn eða Kolaportið verður haldið núna um helgina 24.-25. nóvember og þar er opið á milli klukkan 14 og 17. Á boðstólum verður að venju margskonar heimatilbúið góðgæti og þar verður að sjálfsögðu Hnallþóruborðið margrómaða. Í Kolaporti Hvatar verður hægt að kaupa notaðan fatnað, skó, húsbúnað og alls konar dót sem verðlagt er á slikk. Einnig verða seldar vöfflur og heitt kakó og allur ágóði rennur til góðgerðamála.

„Þau sem eru að taka til hjá sér og vantar að losna við fatnað, búsáhöld eða annan varning er velkomið að koma með það í félagsheimilið í Hnífsdal í þessari viku þriðjudag til fimmtudag. Við erum þarna meira og minna milli kl. 16:00 og 21:00. Ef enginn er á staðnum má skilja eftir á tröppunum. Tökum við flestu nema stórum mublum og túpusjónvörpum. Fatnaður sem verður afgangs fer allur til Rauðakrossins,“ segir Eygló Jónsdóttir fyrir hönd kvennanna í Hvöt.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA