Dagur tónlistarskólanna er haldinn hátíðlegur í febrúarmánuði ár hvert og hafa tónlistarskólar landsins í á þriðja áratug efnt til hátíðar til að vekja athygli á því öfluga og gróskumikla starfi sem fram fer innan þeirra. Viðburðir í tónlistarskólum landsins hafa í gegnum tíðina verið mjög fjölbreyttir og misjafnt er á milli skóla hvaða viðburði er boðið upp á hverju sinni og má þar nefna opið hús, tónleika, hljóðfærakynningar og ýmis konar námskeið.
Á morgun, kl. 14:00, heldur Tónlistarskóli Ísafjarðar Dag tónlistarskólanna hátíðlegan með stórtónleikum í Ísafjarðarkirkju. Dagskráin er fjölbreytt. Strengjasveitin leikur svítu, lúðrasveitir skólans þeyta lúðra í hressilegum lögum, tveir nemendur skólans syngja og leika siguratriði Sam-Vest söngvakeppninnar, söngnemendur koma fram auk barnakóra skólans, rytmasveit T.Í leikur tvö lög og Ísófónían mun svo enda tónleikana en í henni koma saman fjölmargir nemendur skólans svo úr verður heilmikið tónaflóð. Tónlistarskóli Ísafjarðar hefur á að skipa einvala liði kennara sem hafa verið samhentir í vinnu sinni ásamt nemendum til að tónleikarnir megi verða hin besta skemmtun.
Tónleikarnir verða í Ísafjarðarkirkju laugardaginn 18. febrúar og hefjast kl. 14:00. Við vonumst til að bæjarbúar komi og gleðjist með okkur í tilefni af Degi Tónlistarskólanna. Aðgangseyrir er 500 kr. og rennur ágóði óskiptur til hljóðfærakaupa fyrir samspilshópa skólans.