Óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar ef öryggi verður minna

Leiðir R - A2 - A3. Mynd: Vegagerðin.

Það er fróðlegt að skoða ákvæði 28. greinar Vegalaga frá 2007 í samhengi við umræðuna um veglínu í Reykhóllasveit þar sem sveitarstjórnin vill greinilega fara aðra leið en Vegagerðin leggur til.  Þar stendur:

Ákveða skal legu þjóðvega í skipulagi að fenginni tillögu Vegagerðarinnar að höfðu samráði Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda. Fallist sveitarfélag ekki á tillögu Vegagerðarinnar skal það rökstyðja það sérstaklega. Þó er sveitarfélagi óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar ef það leiðir til minna umferðaröryggis en tillagan felur í sér.

 

Þetta er nokkuð skýrt.  Í skýrslu Vegagerðarinnar frá 16.10. 2018 sem unnin var að beiðni sveitarstjórnar Reykhólahrepps er komist að þeirri niðurstöðu að umferðaröryggi á R leiðinni sem Multiconsult lagði til og sveitarstjórnin virðist vilja sé minna en á Þ-H leiðinni se Vestfirðingar almennt hafa í rúman áratug verði sameinaðir um og ekki hvað síst sveitarstjórn Reykhólahrepps. Það er því sveitarstjórninni óheimilt að velja þá leið sé tekið mið af lagatextanum.

Í tillögu Multiconsult er gert ráð fyrir að nota núverandi veg um Reykhólasveitina með litlum endurbótum. Um veginn segir í skýrslu Vegagerðarinnar til skýringar á minna umferðaröryggi:

„Ein af ástæðum þess að Vegagerðin taldi ekki mögulegt að nýta núverandi Reykhólasveitarveg sem Vestfjarðaveg er umferðaröryggi. Eins og kemur fram í kafla 2.3 hér að framan eru margir kaflar á núverandi vegi þar sem vegsýn er ekki nægjanleg, margar beygjur of krappar eða í lágmarksgildum fyrir veg með 90 km/klst. hönnunarhraða. Þá segir líka  að plan- og hæðarlega hluta leiðar A3 sé óhagstæð í samanburði við leið Þ-H
þar sem langhalli er í mesta leyfilega bratta (7%) á þremur stöðum á leiðinni.“

Í sömu lagagrein, 28. grein vegalaga segir ennfremur:

„Ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en sá sem Vegagerðin telur betri með tilliti til kostnaðar og tæknilegrar útfærslu og það leiðir til aukins kostnaðar er heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélag um kostnaðarmuninn.“

Munurinn er um 4 milljarðar króna á stofnkostnaði og augljóst er að Reykhólahreppur getur ekki greitt verðmuninn.  Þá er um 3 milljarða króna kostnaður á 20 ára tímabili sem fellur einkum á vegfarendur þar sem R leiðin er lengri og öryggi minna sem þýðir meiri slysatíðni.

DEILA