Þann 14. nóvember 1984 hóf blaðið Bæjarins besta á Ísafirði göngu sína. Innan skamms, þann 4. janúar á nýju ári, verða 19 ár síðan fréttavefurinn bb.is fór í loftið. Það voru Ísfirðingarnir Sigurjón J. Sigurðsson og Halldór Sveinbjarnarson sem stofnuðu blaðið og ráku það samhliða prentsmiðju. Fyrst var starfsemin til húsa í Suðurtanga en fluttist fljótlega innar á eyrina. Þeir ráku fyrirtækið til 2015 en þá keypti Bryndís Sigurðardóttir það. Á síðasta ári keypi svo bb útgáfufélag á Ísafirði sem rak það þar til í október að núverandi eigandi tók við því.
Fyrst í stað kom blaðið út hálfsmánaðarlega en 47 tölublöð komu út 1985. Síðan voru 50-53 tölublöð í hverjum árgangi þar til dró úr útgáfunni af fjárhagsástæðum fyrir tveimur árum. Metútgáfuárið var 1987 en þá kom blaðið út tvisvar í viku um ellefu vikna skeið og alls urðu tölublöðin þá 62.
Geysilegar breytingar hafa orðið á ekki lengri tíma, bæði hvað varðar tækni og stöðu Vestfjarða. Fréttaleiðir og fréttaveitur eru með allt öðrum hætti en var 1984. Starfsumhverfið er ekki auðvelt fyrir fjölmiðla hvorki á Vestfjörðum né annars staðar á landinu. En eftirspurn eftir fréttum er enn sú sama ef ekki meiri en áður var.
Það er ekki ofmælt að þeir Sigurjón og Halldór ráku um langt skeið mjög öflugan fréttamiðil sem var með þeim fremstu á landinu. Bæjarins besta sendi þeim félögum og starfsfólki þeirra bestu afmælisóskir í tilefni af afmælinu með góðum þökkum fyrir störf þeirra í þágu Vestfirðinga.
Kristinn H. Gunnarsson