Iða Marsibil Jónsdóttir, bæjarfulltrúi í Vesturbyggð og forseti bæjarstjórnar er einnig formaður samgöngunefndar Fjórðungssambands Vestfirðinga. Hún var innt eftir viðbrögðum sínum eftir fundinn í gær með sveitarstjórn Reykhólahrepps.
„Ég lýsi fyrst og fremst miklum vonbrigðum með það hversu langan tíma forsvarsmenn Reykhólahrepps hafa tekið og virðast ætla að taka sér áfram í að afgreiða þetta mál hjá sér. Á fundinum í gær kom það fram að það virðist samstaða þar um að fylgja tilmælum Skipulagsstofnunar og fara í svokallaða valkostagreiningu. Mér er sagt að fram komi í minnisblaði frá Skipulagsstofnun að ef leið Þ-H yrði sá valkostur sem metinn yrði ákjósanlegsastur í slíkri valkostagreiningu sé í raun ekki eftir neinu að bíða með að hefjast handa og yrðu því lágmarkstafir, en aftur á móti ef einhver hinna leiðanna yrði fyrir valinu þá þarf að fara fram nýtt matsferli með tilheyrandi kærufrestum og því algjör óvissa með tímalínu þeirrar framkvæmdar. Ég er fyrst og fremst undrandi og mjög vonsvikin með það að fyrri valkostagreining skuli með þessu höfð að engu. Ég vil ekki meina að hægt sé að líkja þessu saman við það þegar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi starfs- og rekstrarleyfi laxeldisfyrirtækja á dögunum. Þar sem munurinn á þessum málum er sá að í Gufudalssveitinni hefur farið fram valkostagreining á fyrri stigum en það hafði ekki verið gert í matsferlinu hjá eldisfyrirtækjunum. Í raun er ég gáttuð á að málið sé komið í þennan farveg. Við sem erum í forsvari sveitarfélaganna á sunnanverðum Vestfjörðum tökum hlutverk okkar í hagsmunagæslu íbúanna hér mjög alvarlega og skynjum það að hér hefur fólk fengið alveg miklu meira en nóg af töfum. Við viljum auðvitað sjá mannsæmandi vegatengingu við grunnnet landsins strax. Við eigum í raun hrós skilið fyrir það eitt að kjósa þó að búa við þessar aðstæður sem eru fullkomnlega óboðlegar og hafa verið óbreyttar, bæði til Norðurs og Suðurs, í áraraðir.“