Reykhólahreppur ákvað í dag að láta gera svonefnda valkostagreiningu um leiðir fyrir nýja veg um Reykhólasveit. Skipulagsstofnun lagði það til í skýrslu sem unnin var að beiðni hreppsins. „Í henni verði borin saman vegtæknileg atriði, kostnaður og áhrif á náttúru og samfélag, þar með talið einsog áður segir sérstaklega á samfélag í Reykhólahreppi, af valkostum A3, D2, útfærslu Multiconsult á leið D2, leið R og leið Þ-H.“ segir í skýrslu Skipulagsstofnunar.
Sveitarstjórn hitti samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga í dag og kynnti fyrir henni ákvörðun sína. Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri segir að farið hafi verið yfir verkið í hreinskilni bæði um stöðu og horfur. „Sitt sýndist hverjum en við skiljum alla vega betur hvert annað eftir fundinn“ sagði Tryggvi.
Gert er ráð fyrir að valkostaskýrslan verði unnin af aðila sem ekki haft aðkomu að málinu áður. Miðað er við að greiningarvinnan taki 3 vikur og síðan fari málið í íbúakynningu áður en sveitarstjórn tekur ákvörðun um leiðaval. Tryggvi sagðist vonast til að þessu ferli yrði hægt að ljúka á þessu. Á næsta ári væri þá hægt að vinna að breytingum á aðalskipulagi.
Tryggvi Harðarson var spurður hvort Vegagerðinni væri ekki treyst og svaraði því til að þetta snérist ekki um traust heldur að fá skýringar á kostnaðarmun sem er á útreikningum Vegagerðarinnar og Multiconsult. Hann sagði að heimamenn vildu skoða ódýrari kosti í brúargerð en hingað til hefur tíðkast.
Framundan eru á fimmtudag fundur Vegagerðarinnar með fulltrúa frá Multiconsult til þess að fara yfir kostnaðartölur, tæknifundur sagði Tryggvi og á föstudaginn hittast svo sveitarstjórnin og Vegagerðin.
Borgar Skipulagsstofnun?
Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri var spurður um kostnaðinn við valkostagreininguna og fulltrúa Mulitconsult. Hann svaraði því til að þetta gæti fallið undir kostnað við aðalskipulagsbreytingar og það yrði sótt á Skipulagsstofnun um greiðslu á þeim kostnaði.