Finndu mig í fjöru, nýtt kennsluefni fyrir grunnskóla

Tveir listamenn og tveir sérfræðingar hjá Umhverfisstofnun hafa tekið höndum saman og unnið kennsluefni um skaðleg áhrif plasts á lífríki.

Þau Hildigunnar Birgisdóttur og Arnar Ágeirsson myndlistamenn og Sóley Bjarnadóttir og Hólmfríður Þórisdóttir, sérfræðingar hjá Umhverfisstofnun, eiga heiðurinn af framtakinu sem ber heitið „Finndu mig í fjöru“.

Sóley og Hólmfríður segja að hugmyndin hafi kviknað á Hátíð hafsins í sumar með samstarfi Umhverfisstofnunar og fyrrnefndra listamanna. Þá hafi verið sett upp sýning um plastmengun í hafi. Í kjölfarið hafi orðið umræða um mikilvægi þess að Umhverfisstofnun léti útbúa kennsluefni og dreifði því til íslenskra grunnskóla og nú sé barnið fætt. „Þörfin á þessu fræðsluefni virðist mikil og við teljum mikilvægt að börn læri snemma hvernig best er að umgangast umhverfið,“ segja Sóley og Hólmfríður.

Verkefnum kennsluefnisins er beint til kennaranna. Þeir fá upplýsingar, leiðbeiningar og hugmyndir sem nýst geta til að fræða og virkja nemendur. Tilgangurinn er að vekja athygli á rusli í umhverfi okkar og fá börn til að skilja skaðsemi þess að henda rusli í náttúrunni.

Hvað plastið varðar sem nú er mjög til umræðu sem ógn á heimsvísu, kemur m.a. fram í kennsluefninu að flestir geti lagt fram til að draga úr skaðsemi með því að minnka neyslu, afþakka óþarfa og flokka og endurvinna plast.

Kennsluefnið má nálgast hér.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA