Frá því er greint á vef Stjórnarráðsins að ríkið hafi yfirtekið lífeyrisskuldbindingar Bændasamtakanna.
Þegar Bændasamtök Íslands voru stofnuð árið 1995 með sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda ábyrgðist ríkissjóður skuldbindingar Bændasamtaka Íslands í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR).
Frá næstu áramótum mun ríkið taka yfir lífeyrisskuldbindingar Bændasamtakanna að upphæð 172 m.kr. samkvæmt samningi sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna og framkvæmdastjóri LSR undirrituðu í dag. Samkvæmt samningnum mun framlag ríkisins vegna búvörusamninga lækka árlega um samsvarandi fjárhæð frá og með árinu 2019.