Af hverju flutti ég vestur?

Það var árið 2001 sem ég tók þá afdrifaríku ákvörðun ásamt þáverandi manni mínum að flytja vestur á Patreksfjorð með tveimur dætrum okkar. Ástæðan var einföld, við vorum komin með nóg af borgarlífinu enda bæð uppalin í sveit. Við vorum sérstaklega komin með nóg af umferðinni og fjárhagsbasli sem við stóðum í þegar í fangið á okkur komu störf sem sjúkraþjálfarar á Patreksfirði. Við stefndum reyndar á Ísafjörð fyrst en örlögin beindu okkur annað. Við vorum búin að hafa samband við þáverandi framkvæmdastjóra Heilbrigðistofnunar Patreksfjarða hann Úlfar Thoroddsen sem hafði í mörg ár auglýst eftir sjúkraþjálfara. Hann var að vonum hissa að tveir sjúkraþjálfara vildu flytja vestur.

Morgunin eftir þetta símtal erum við sem vanalega á leið í vinnu með stelpurnar þegar bíll skýst fyrir framan okkur með númeraplötuna Patró, þótti okkur þetta fyndið en svo hvarf hann…nokkrum gatna mótum síðar vorum við aftur fyrir aftan sama bíl með sömu númeraplötu og ég man að ég segi þá við Óla (minn fyrrverandi) :“Ef þetta er ekki örlögin að segja okkur hvað á að gera þá veit ég ekki hvað“.

Nú allavegana um verslunamannahelgina 2001 flytjum við á Patreksfjörð og ég hef búið þar síðan. Loksins var maður komin í ferskt loft og fallega fjallasýn . Nóg var að starfa og samfélagið tók okkur opnum örmum. Árið 2003 skilja leiðir okkar hjóna en þá vorum við búin að eignast þriðja barnið, son. Snemma árs 2004 var ég búin að taka þá ákvörðun að flytja aftur suður, mér fannst erfitt að vera ein með börnin fyrir vestan og minn fyrrverandi þá fluttur suður…en örlögin högðuðu því að ég hitti núverandi eiginmann og snarhætti við að flytja. Með honum er ég búin að eiga fjögur börn og eru því börnin samtals sjö…við búum í draumahúsinu okkar með útsýni sem er óviðjafnanlegt.

Ég er þakklát fyrir örlögin því hér hefur mér liðið vel og ég kalla mig Patreksfirðing þó að ég flokkist sem „aðflutt“. Maðurinn minn Eyjólfur er Rauðsendingur svo að vestfirsku genin eru sterk á heimilinu og dásamlegt að eiga athvarf á Rauðasandi sem er eins og allir vita fallegasti staður á jarðríki. En hvers vegna að búa hér? Jú hér höfum við allt til alls, góðan skóla og leikskóla og meira að segja framhaldsskóla.

Heilbrigðisþjónusta er góð og íþróttalífið blómstrar. Börnin mín geta stundað: íþróttaskóla, fimleika, fótbolta körfubolta og frjálsar íþróttir og íþróttasamstarfið á öllu svæðinu er til fyrirmyndar. Við erum með öflugan tónlistarskóla og flott íþróttahús þar sem ungir sem aldnir eru duglegir að mæta. Við erum svo með sjósundsshóp en þar er ég virkur þátttakandi, ekkert jafnast á við að skella sér í sjóinn á Þúfneyri eða á Rauðasandi og synda með selum en þeir sjást oft þar…en við látum okkur ekki sjóinn nægja því við förum reglulega í Mikladalsána að baða okkur, ekkert er magnaðra en að sitja í ísköldum hylnum og horfa á fjöllin í kring. Við hjónin erum mikið áhugafólk um fjallgöngur eins og svo margir hérna, ég þarf ekki annað en að reima á mig gönguskóna og ganga út um dyrnar, því fjöllin eru beint fyrir ofan húsið mitt…þvílík forréttindi, maður fer út og er nánast komin í fjallgöngu. Svo er það mannlífið, hér er nóg um að vera…og börnin ganga eða hjóla sjálf í skólann og á íþróttaæfingar eða tónlistaræfingar. Hér er því ekkert skutl og maður hreinlega gleymir því að fylla á bílinn, mér bregður alltaf jafn mikið þegar ljós logar á bensínmælinum.

En ég verð að játa að stundum hefur hvarflað að mér að flytja nær höfuðborginni, nær þessari þjónustu sem við þurfum að sækja suður og nær ættingjunum mínum og elstu dóttur. Ég kemst samt alltaf að sömu niðurstöðu að hér vil ég búa í, kostirnir eru svo margir eins og ég hef áður minnst á. Maður er afslappaðri, meira í núinu þegar maður er í svona nálægt náttúrunni og eins gaman og það er að skreppa suður þá er ekkert betra en að koma heim og ná andanum…já heima á Vestfjörðum er best.

Ég skora á Gunnþórunni Bender.

Margrét Brynjólfsdóttir

DEILA