Hjónaballið varð 84 ára í ár

Það var setið í öllum hornum á hjónaballinu á Þingeyri um síðustu helgi.

Hjónaballið á Þingeyri er vinsælt hjá mörgum og hefur verið það í hvorki meira né minna en 84 ár. Það voru nokkur hjón sem byrjuðu ballið en í ár fóru þau Ásta Guðríður Kristinsdóttir og Friðbert Jón Kristinsson á Hólum fyrir skipulagsnefnd. Ylfa Mist Helgadóttir var veislustjóri og hún og Guðrún Snæbjörg Sigþórsdóttir stjórnuðu sérdeilis hressilegum fjöldasöng í bland við almennt grín og glens.
Það er mál manna að hjónaballið hafi ekki verið svona vel sótt í fjölmörg ár og skemmtunin fór í alla staði vel fram. Unga fólkið var meira áberandi en verið hefur enda slær varla nokkur maður hendinni á móti góðu hjónaballi. Rúnar Þór og hljómsveitin Trap lék fyrir dansi sem dunaði langt frameftir.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA