Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri Reykhólahrepps segist í samtali við bb.is vonast eftir því að niðurstaða Reykhólahrepps um leiðaval fyrir nýjan veg um hreppinn liggi fyrir fyrir áramót.
Tryggvi segir að haldnir hafi verið fundir með Multiconsult, Alta, VSÓ og Skipulagsstofnun. Þá verði fundur á þriðjudag í næstu viku með samgöngunefnd Fjórðungssambandsins og einnig áformi forsvarsmenn hreppsins að hitta Vegagerðina í næstu viku. Skipulagsstofnun hefur lagt til að gerð verði valkostagreining, þar sem þeir kostir sem til greina koma verði bornir saman og greindir. Það gæti tekið 2-3 vikur. Reiknað er með því að fá einhvern aðila til þess að gera greininguna sem ekki hefur komið að þeim skýrslum sem þegar liggja fyrir.
Eftir að valkostagreiningin hefur verið gerð reiknar Tryggvi Harðarson með því að málið fari í feril innan sveitarstjórnar.
Tryggvi Harðarson segir að kostirnir séu annars vegar ytri brúar leiðin, sem heitir R leið í skýrslu Multiconsult, og hins vegar Þ-H leiðin. Ekki er útilokað að jarðgangaleiðin komi einnig til skoðunar sem þá þriðji kostur, en Tryggvi taldi það þó frekar ólíklegt.
Það sem menn vilja fá , segir Tryggvi , eru skýringar á þeim mikla kostnaðarmun sem er á tölum Vegagerðarnnar og Multiconsult varðandi R leiðina. Hann lagði áherslu á að ekki væri fyrirhugað að láta gera nýjar skýrslur heldur aðeins að greina þær sem fyrir liggja