Nú eru sjö vikur frá því að Lýðháskólinn á Flateyri hóf göngu sína og vígalegir nemendur tóku yfir götur Flateyrar. Göngustígar sem fáir hafa gengið um eru skyndilega meira notaðir, íþróttatímar sem ætlaðir eru bæði nemendur og þorpsbúum eru vel sóttir og Vagninn verður allt í einu opinn yfir veturinn. Þetta lífgar upp á lífið.
Því lífið á Flateyri er ágætt. Það rúllar áfram, persónulegt en sjálfstætt og nándin er mikil. Þess vegna gat blaðamaður BB sjanghæað Önnu Siggu kennslustjóra inn í ræktina eftir einn af téðum íþróttatímum og rakið úr henni garnirnar í viðtali. Engar myndir voru teknar við þetta tilefni þó það hefði svo sannarlega sómt sér í íslenskri kvikmynd um lífið á landsbyggðinni og þorpsbúa í íþróttatímum. Sumt verður bara að fá að vera eins og það er.
En hvernig gengur með Lýðháskólann? Eru allir nemendur ennþá sem byrjuðu þar í haust.
„Það var einungis einn sem kom og fór og annar nemandi varð frá að hverfa vegna veikinda,“ sagði Anna Sigga um leið og hún hagræddi sér á lyftingabekknum. „Það gengur mjög vel með skólann og við erum að sjá svo marga nemendur blómstra sem voru kannski ekki alveg fullir af sjálfstrausti þegar þau komu. Við erum alveg að sjá þau skríða út úr skelinni sinni og verða sterkari og þau eru að takast á við allskonar nýjar aðstæður. Og þau eru bara mjög ánægð, bæði nemendur og kennarar,“ segir Anna.
Hún segir að flest gangi eftir bókinni og það gangi mjög vel að móta námið með kennurunum sem sumir hverjir eru að stíga sín fyrstu skref í kennslu. Nemendur eru á aldrinum 18-62 ára og það er ekki sjálfgefið að svona breiður hópur sé samstíga en Anna Sigga segir að hópurinn nái mjög vel saman og það sé kominn sterkur kjarni á báðum brautum. „Það er rosalega gaman að sjá skólastarfið verða að veruleika skólann og sjá hvað nemendur eru opnir, frjóir og skemmtilegir og til í allt,“ bætir hún við.
Nýverið auglýsti Lýðháskólinn 2-4 laus pláss á haustönn. Það er vegna þess að nokkrir nemendur skráðu sig einungis á haustönnina í skólanum en flestir ætla þó að halda áfram. „Það er einhver smá hreyfing á því þannig að það losna einhver pláss. Það er ekki alveg ljóst hversu mörg en 2-4. Það fer líka eftir húsakostinum, við erum svo háð honum.“
Eins og áður er fólk á öllum aldri velkomið í Lýðháskólann og hvort sem þeim fylgja makar og börn eða ekki. Anna Sigga nefnir samt að jafnvel þó allir leggi sig fram um faglegt starf í leikskólanum þá vanti sárlega leikskólakennara þar og hefur gert það í töluverðan tíma. „En ég býst nú við að það sé alveg pláss í grunnskólanum,“ segir Anna að lokum, um leið og blaðamaðurinn sleppir henni til óþreyjufullrar dótturinnar sem ætlar í sund og segir brosandi að það sé mjög fínt að búa á Flateyri.
Sæbjörg
sfg@bb.is