Breytingar framundan á póstþjónustu

Bréfasendingum hefur mjög fækkað á síðustu árum.

Samgönguráðherra lagði í gær fram frumvarp til laga um ný póstþjónustulög. Meginefnið er að afnema einkarétt ríkisins á póstþjónustu. Rekstur póstþjónustu í atvinnuskyni verður ekki lengur leyfisskyld starfsemi hér á landi svo sem verið hefur heldur aðeins skráningarskyld.

Í kynningu ráðuneytisins á frumvarpinu segir:

„Í frumvarpinu er gerð grein fyrir alþjónustu en sú þjónusta er skilgreind sem tiltekin lágmarksþjónusta sem allir notendur póstþjónustu á landinu eiga rétt á, óháð staðsetningu og á viðráðanlegu verði. Alþjónusta nær bæði til póstsendinga innanlands og til annarra landa. Lagt er til að sama þjónusta skuli standa þeim til boða sem búa við sambærilegar aðstæður og að alþjónusta taki mið af tækni- og samfélagsþróun, hagrænum þáttum og þörfum notenda. Í alþjónustu felst aðgangur að afgreiðslustað og póstkössum en einnig skylda til að tryggja að póstkassar sem falla undir alþjónustu séu tæmdir a.m.k. tvisvar í viku eða í samræmi við fjölda dreifingardaga á viðkomandi svæði. Ekki er gert ráð fyrir breyttu fyrirkomulagi við póstútburð í fyrstu frá því sem nú er og áfram miðað við útburð tvo virka daga í viku.“

Fram kemur í greinargerð frumvarpsins að ef alþjónusta verði ekki veitt á markaðslegum forsendum sé það skylda ríkisins að veita hana. Lagt til að meginreglan verði sú að miðað verði við að dreifing póstsendinga innan alþjónustu verði tveir dagar í viku. Samband íslenskra sveitarfélaga bendir á að í Noregi sé aðeins vikið frá fimm daga reglunni um dreifingu í Noregi við sérstakar aðstæður eða sérstakar landfræðilegar aðstæður. Þá gerðu Bændasamtök Íslands þær athugasemdir að tryggja þyrfti jafnræði milli dreifbýlis og þéttbýlis þannig að dreifbýlið yrði ekki undir. Ráðuneytið breytti ekki frumvarpsdrögunum vegna þessara athugasemda og ráðherra leggur frumvarpið óbreytt fram.

Af greinargerðinni má ráða að veruleg gjaldskrárhækkun vrði á næstu árum eða skerðing þjónustu. Segir að kostaður aukist um 250 milljónir króna og að ekki sé rúm innan fimm ára ríkisfjármálaáætlunar til þess að mæta þeirri hækkun.

Lagt er til að fresta gildistöku laganna til 1. janúar 2020 og „gert ráð fyrir að í millitíðinni verði tíminn notaður til að undirbúa breytingar varðandi ríkisfjármálin, sem og að gefa yfirstjórn Íslandspósts færi á að laga rekstur félagsins að væntanlegum breytingum. „

DEILA