María Júlía gæti orðið rós í hnappagat Vestfirðinga

Síðastliðinn föstudag var áhugavert málþing haldið í Edinborgarhúsinu sem nefndist: „Er Alþýðumenning þjóðararfur?“ Þar voru skip og bátar aðalumræðuefnið sem og skortur á fjármagni til að viðhalda þeim menningararfi sem felst í farartækjum á sjó. Fyrir áhugasama sem gátu ekki setið málþingið þá er ekki öll von úti, því Jakamenn tóku málþingið upp og hér er hægt að horfa á það og hlusta.

Björgunarskipið María Júlía sem liggur undir skemmdum við Ísafjarðarhöfn var meðal annars meginástæða þess að slegið var til ráðstefnu. María Júlía er mjög merkilegt skip sem á sér stóra og áhugaverða sögu en einhverra hluta vegna hefur aldrei fengið nægilegt fjármagn til að halda henni við. Þeir Jón Sigurpálsson fyrrverandi forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða og Björn Erlingsson hafeðlisfræðingur og áhugamaður um haf- og strandminjar, röktu sögu Maríu Júlíu á málþinginu og bentu á áhugaverðar leiðir sem hægt væri að fara til afla fjármagns fyrir hana, sem og að nýta skipið til framtíðar.

BB hafði samband við Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands og kennara í safnafræði. Fyrirlestur Sigurjóns á málþinginu nefndist, „Leiðin fram á við,“ og hann hafði þetta um málið að segja:

„Eins og kom fram í fyrirlestri Jóns og Björns um varðveisluverkefnið María Júlía, þá er hér um stórt samfélagslegt verkefni að ræða frá upphafi. Samtakamáttur Ísfirðinga við að gera kaup á skipinu að veruleika á sínum tíma, er aðdáunarverður og það var hjartnæmt að heyra hversu margir gáfu til verkefnisins. Skipið gegndi síðan fleiri mikilvægum verkefnum á svæðinu eða þar til að því var lagt.“

„Á síðustu árum hefur Byggðasafn Vestfjarða verið að berjast við að varðveita skipið og hefur verið á brattann að sækja í þeim efnum. Ég held að ein ástæðan fyrir því sé að fólk gefur sér ekki tíma til að hugsa um svona mál og mikilvægi þeirra. Á það bæði við um stjórnmálamenn og almenning. Það þarf hins vegar að breytast, fólk þarf að vakna til vitundar um að hugsun safnafólks lítur til framtíðar fyrst og fremst. En verkefni á borð við Maríu Júlíu snýst um að gera kynslóðum framtíðarinnar kleift að geta með áþreifanlegum og áhrifaríkum hætti menntað sig um lífið eins og það var áður fyrr. Það er með öðrum orðum ekki nóg að geyma lýsingar á starfi skipsins og mikilvægi á textalegu eða myndrænu formi, í ritgerðum eða vefsíðum. Sé það hins vegar gert, verðum við fátækari fyrir vikið.“

Sigurjón sagði ennfremur við BB að þær áætlanir sem Jón og Björn hefðu kynnt á málþinginu væru mjög framsæknar og „gætu hæglega orðið rós í hnappagat Ísfirðinga og annarra Vestfirðinga.“ Hugmyndir þeirra snérust um að afla fjármagns og reka skipið í leigurekstri, til bæði fræði- og ferðamanna, þannig að ákveðnar vikur á hverju ári væru helgaðar þeim verkefnum sem fylgja þessum hópum fólks. Sigurjón sagði líka að ef María Júlía væri í notkun þá var ekki bara verið að stuðla að varðveislu skipsins, heldur einnig verið að veita ungu fólki tækifæri til að mennta sig með vettvangsnámi. „Til þess að verkefnið geti orðið að veruleika þarf hins vegar að virkja samtakamátt íbúanna á svæðinu og annarra utan þess,“ sagði Sigurjón Baldur Hafsteinsson.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA